13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég get ekki látið málið fara svo hjá, að segja ekki um það nokkur orð.

Grundvöllurinn undir þessum umr. verður að vera sú staðreynd, að við þurfum að kaupa í Þýzkalandi — en þessi umr. hefir snúizt svo mikið um Þýskaland, að ég sé ekki ástæðu til að tala neinu rósamáli — vörur fyrir andvirði allra þeirra vara, sem þangað eru seldar. Þess vegna er það staðreynd, að möguleikar til þess að selja framleiðsluvörur okkar þangað fer eftir því, hvað okkur tekst að kaupa mikið af vöru þaðan. Sú gagnrýni, sem hér ætti að geta komizt að í þessu máli út af fyrir sig á hendur þeirra, sem hafa farið með þessi mál, væri því sú, að þeir hefðu ekki reynzt nógu duglegir að beina vörukaupunum til Þýskalands.

Að þessu leyti fannst mér hv. þm. Vestm. ræða málið á réttum grundvelli. Svo er það annað atriðið, hvernig eigi að skipta þessum markaðsmöguleikum milli framleiðenda í landinu.

Ég skal taka það fram, eins og hæstv. atvmrh. hefir áður lýst yfir, að af hálfu ríkisstj. hefir gjaldeyrisn. haft þau fyrirmæli að beina til Þýzkalands öllum þeim vörukaupum, sem ekki væru bundin, til þess að gera þann markað sem stærstan, vegna þess að við fáum þar markað fyrir vörur, sem við getum ekki selt annarsstaðar, og þar getum við yfirleitt fengið hærra verð fyrir okkar vöru heldur en á öðrum mörkuðum. Hv. þm. Vestm. vildi halda því fram, að þetta hefði ekki tekizt eins og skyldi. Var hann að sönnu ekki mjög harðorður og nefndi sem dæmi, að menn hefðu óskað eftir að fá vöru frá Þýzkalandi, en ekki fengið leyfi til þess. Til þess geta legið tvær ástæður. Það getur verið, að menn hafi óskað eftir leyfi á óþarfa vörum, sem þjóðin getur verið án á þessum vandræðatímum, og það sjá allir, að við getum ekki látið okkar framleiðsluvöru fyrir slíkan varning. Í öðru lagi geta komið fyrir þau tilfelli, sem hv. þm. vitnaði í, að óskað sé eftir innflutningi á meira magni en viðkomandi maður getur haft rétt á eftir þeirri reglu, sem höfð er um úthlutun leyfa. Hv. þm. Vestm. nefndi tvö dæmi. Í öðru tilfellinu hafði maður ekki fengið flutt inn eins mikið af haframjöli eins og hann óskaði, en hinn maðurinn ekki fengið flutt inn eins mikið þakjárn eins og hann óskaði. Þetta hvorttveggja stafar af því, að innflutningsleyfi er veitt með tilliti til þess, hvað mikil viðskipti þessir menn hafa haft áður.

En ég álít, að í þessum tilfellum hafi þetta ekki komið að sök, því að þrátt fyrir þetta er meginið af haframjölinu keypt í Þýzkalandi, og sama er að segja um þakjárnið.

Ég skal taka undir með hv. þm., að það beri vitanlega að athuga við úrskurð um þessa hluti, að binda sig ekki allt of einskorðað við þá reglu, að menn fái innflutningsleyfi eftir því, sem áður hefir verið. En það verður að hafa það sem meginreglu, til þess að forðast rangindi í þessum efnum.

Ég skal taka það fram, úr því að ég er farinn að tala um þetta á annað borð, að að mínu áliti hefir gjaldeyrisn. með aðgerðum sínum. með því — ef svo má að orði komast — að neyða innflytjendur til þess að kaupa vörur með hærra verði í Þýzkalandi heldur en annarsstaðar. beinlínis skapað möguleika til þess að nota þann markað, sem verið hefir fyrir íslenzkar vörur í Þýskalandi nú í ár. Það má kannske í einstökum atriðum, til þess að hallmæla því, sem gert hefir verið, finna eitthvað til, en heildarvinnubrögðin hafa verið þau, að hægt er að þakka þeim, að nú er hægt að selja á þessum markaði um 50% af gærum og ull. Innflytjendur hefðu ekki, ef því hefði ekki verið haldið að þeim, farið að kaupa vöru þar, sem hún var dýrari heldur en þeir gátu keypt hana annarsstaðar.

Ég skal taka það fram, að ríkisstj. mun, eins og hún hefir gert, leggja fyrir innflutnings og gjaldeyrisn. að halda því sama áfram um að beina vörukaupunum til Þýzkalands, og mun fylgjast með í því að þessu verði framfylgt svo stranglega sem kostur er á, því að henni er það ljóst, hversu mikils virði það er að geta haldið þessum markaði.

Þá er það hitt atriðið, sem hv. 7. landsk. kom inn á, það er um skiptingu þessara markaðsmöguleika, sem opnir eru í Þýzkalandi, á milli útflytjenda í landinu. Það er vitanlega vandamál, en ég held, að allir geti orðið sammála um eitt meginatriði, sem sé, að það verði að sitja fyrir að selja þangað vöru, sem ekki er hægt að selja annarsstaðar. Það er töluvert af útflutningsvöru landsmanna, sem ekki hefir verið hægt að selja annarsstaðar, og svo getur orðið enn. Við vitum um sumar vörur, eins og t. d. ísfiskinn og síldarmjölið. Það er þess vegna ætlun stj. að fylgja þeirri reglu að veita útflutningsleyfi fyrst og fremst fyrir þær vörur, sem vitað er, að ekki er hægt að selja í öðrum löndum. Ég held að ekki sé hægt að deila um, að þessi regla sé eðlileg frá sjónarmiði heildarinnar.

Ég veit, að það er hægt að koma af stað tortryggni í kringum atriði eins og þetta. Það hefði verið hægt að segja í þessu tilfelli við bændur, ef gærur og ull hefðu ekki komizt þarna að: Þarna situr nú ykkar góða ríkisstj. og neitar ykkur um að selja afurðir ykkar þar, sem þið fáið hæstv. verð fyrir þær. Það er hægt að nota sér þetta. en varla er það sæmandi.

Það er ómögulegt, að nokkrum manni detti í hug, að það sé sú rétta regla að láta þessi viðskipti fara svo úr hendi, að við sitjum uppi með vörur, sem við alls ekki gætum selt annarsstaðar, en fylla markaðinn með vörum, sem við gætum selt annarsstaðar. Það er því mjög langt frá því, að ummæli hv. 7. landsk. séu réttmæt. Enda fullyrti hann ekkert um þetta; hann sagði bara, að það væri rangt, ef neytendur hlífðust við að kaupa vörur frá Þýzkalandi. Ég er honum sammála í þessu, og það er einmitt þetta, sem ekki hefir verið gert. Það hefir verið unnið að því, eins og ég sagði, að hita menn kaupa vörur frá Þýzkalandi, þó að þær væru dýrari en annarsstaðar, og það hefir verið gert að innflytjendum nauðugum, vegna þeirrar nauðsynjar að halda þessum markaði. Það fer því fjarri, að óeðlilega mikið tillit hafi verið tekið til neytendanna. Hinsvegar verð ég að álíta það rétt hjá hæstv. atvmrh., að ef það liggur þannig fyrir, að það er meiri verðmunur á vöru, sem þarf að kaupa frá Þýzkalandi hingað inn, en þeirri vöru, sem hægt er að selja þangað, þá sé réttara, að láta þessi viðskipti ekki fara fram, ef hægt er að selja vöruna annarsstaðar. Öðru máli er að gegna um vöru, sem ekki er hægt að selja í öðru landi. Þá sjá allir, ef framleiðendur bæru skarðan hlut frá borði, að þá væri réttlátt að bæta þeim það upp með einhverju fjármagni innanlands.

En vonandi kemur ekki til þess, að þetta þurfi að gera. Við skulum vona, að möguleikarnir til innkaupa frá Þýzkalandi verði svo rúmir á næsta ári, að hægt verði að koma þessum viðskiptum vel fyrir. En það má búast við, að við getum ekki selt til Þýzkalands allar þær vörur, er við óskum að geta selt þangað, vegna þess að ekki er hægt að fá þar nema takmarkað vöruval til að flytja hingað til landsins.

Ég vil beina því til manna, að þeir athugi vandlega við gagnrýni sína á hvaða grundvelli þessi viðskipti eru byggð. Það er nokkuð sérstakt, sem hér er um að ræða, og mér finnst það aðallega vera tvö atriði; annað, að hve miklu leyti skuli halda innflutningi okkar til Þjóðverja, og hitt, hvernig eigi að skipta markaðsmöguleikunum milli framleiðenda hér.