13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það er náttúrlega ekki furða, þó hæstv. atvmrh. viti lítið um frv. mitt um fiskiráð frá síðasta þingi, því hann hefir sjálfsagt verið svo önnum kafinn í þinginu, að hann hefir ekki haft tíma til að kynna sér það að ráði, þó hann að vísu hnuplaði hugmyndinni, sem ég bar þar fram, og færði hana aftur tötrum klædda inn í þingið. Enda báru orð hans áðan vott um, að hann vissi ekki, hvernig fiskiráðið átti að vera skipað, því þar átti enginn maður að vera frá S. Í. S., heldur frá Sölusambandi fiskframleiðenda, Félagi ísl. atvinnurekenda, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi ísl. matjessíldarframleiðenda og Fiskifélagi Íslands. Fulltrúum allra þessara stofnana var bægt burt með hans till., því þær voru gerðar með það fyrir augum að ná pólitísku valdi í málinu, en mínar till. miðuðu að því að sameina þá krafta, sem að haldi gætu komið því viðfangsefni, sem um var að ræða.

þetta skiptir raunar ekki máli í sambandi við það mál, sem hér er til umr. En af því hæstv. atvmrh. þóttist hafa náð svo góðum höggstað á mér, að hæstv. fjmrh. kom hlaupandi til að dást að því, hvílíku steinbítstaki hann hefði tekið mig, þá vildi ég sýna, hvað auðveldlega ég smeygði mér úr því, eins og venjulega er vandalaust, þegar hæstv. stj. er annarsvegar.