22.02.1935
Efri deild: 10. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

7. mál, eftirlit með matvælum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfir.]:

Eins og hv. þdm. er kunnugt, var á síðastl. hausti gerð nokkur rannsókn á allskonar matvælum og neyzluvörum, sem seldar voru í Reykjavík, sumpart framleiddar hér og sumpart innfluttar frá útlöndum, og komu í ljós við þá rannsókn allavarlegar misfellur á tilbúningi þessara vara. Því var lýst yfir á síðasta þingi af hálfu stj. í tilefni af fyrirspurn, sem fram kom út af þessum misfellum, að frv. væri í undirbúningi hjá stj. snertandi þetta efni. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er fram borið til þess að efna það loforð, og á frv. að fyrirbyggja, að slíkar misfellur, sem komu í ljós í nóv. síðastl., endurtaki sig í framtíðinni. Í sambandi við þær misfellur, sem komu í ljós í haust, var farið að athuga þau ákvæði, sem snerta þetta efni í gildandi lögum, og kom þá í ljós, að löggjöfin var harla fátæk í þessum sökum og ófullkomin. Aðeins eru til ein lög, sem eingöngu tilheyra heilbrigðislöggjöf, en það eru lög um tilbúning og verzlun með smjörlíki. nr. 32 frá 19. júní 1933, þar sem skipað er fyrir um eftirlit með tilbúningi þessarar vöru. Hefir komið í ljós, að laga þessara var full þörf. Í nóvember í haust var manni þeim, sem settur hafði verði samkv. þessum lögum til þess að hafa eftirlit með smjörlíkisverksmiðjunum, falið að gera rannsóknir á fleiri tegundum matvæla í samvinnu við landlækni og aðstoðarlækni hans, og það kom í ljós við þessa rannsókn, eins og áður er sagt, að um allalvarlegar misfellur var að ræða á tilbúningi ýmsra matvæla. Svo var látið heita um sumar tegundir matvæla, að í þeim væru efni, sem varan dró nafn af, en þar voru ekki. Aftur á móti voru önnur lakari efni í vörunum, sem höfðu minna gildi. Í þriðja lagi kom það fyrir, að í neyzluvörum voru beinlínis skaðleg efni eða óholl. Ég hygg, að flestar menningarþjóðir hafi talsvert ýtarleg lagaákvæði um eftirlit með hollustu matvæla og neyzluvara, sem seldar eru. Hér á landi vantar að mestu leyti slíka löggjöf. En þörfin fyrir þá löggjöf fer stöðugt vaxandi, eftir því sem vex iðnframleiðsla á ýmsum matvælum. Þessum iðnaði er hollt að vaxa upp við ákveðnar reglur og eftirlit, svo hann leiðist ekki til að vanda minna en æskilegt er þær vörur, sem framleiddar eru.

Ég skal geta þess, að landlækni hefir verið falið að semja þetta frv., og hefir hann til þess notið aðstoðar eftirlitsmannsins með smjörlíkisgerðunum. Frv. er ekki ýkjamargbrotið eða yfirgripsmikið, en í 6. og 7. gr. eru heimildir fyrir ráðh. til þess að setja með reglugerð ákvæði um ýms atriði, er ekki eru ákveðin með lögunum. Á þennan hátt er ætlazt til, að hægt verði að auka gildi laganna eftir því sem þörf gerist, en frv. er sá rammi, sem nauðsynlegt er að setja upp til þess að binda þau ákvæði, sem síðar kann að verða nauðsynlegt að sett verði.

Ég vil svo óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.