12.10.1935
Sameinað þing: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

Kæra um kjörgengi

Ólafur Thors:

Lögfræðingar hér í hv. d. hafa deilt um, hvað standi í kosningalögum og stjskr. og þetta deilumál snertir. Ég ætla ekki að tefja umr. mikið með því að fara að blanda mér í þá deilu eða endurtaka rök og gagnrök, sem fram hafa verið færð af þeirra hendi. Ég verð þó að minnast lítilsháttar á tvennt, sem fram hefir komið, aðallega frá hv. 1. þm. Skagf. Fyrst það, að í 133. gr. kosningalaganna er skýrt tekið fram, að heimilt sé að taka kjörbréf af þm., þótt hann hafi hlotið það; jafnframt gerir stjskr. ekki ráð fyrir nema tvennskonar tegund þingmanna, nefnilega kjördæmakosnum þingmönnum og svo uppbótarþingmennum, sem verða að vera í einhverjum flokki. Þar sem nú þessi hv. fyrrv. þm., Magnús Torfason, hefir sagt sig úr flokki þeim, sem hann var í og hlaut uppbótarsæti frv, getur hann ekki verið uppbótarþm. þess flokks. Hann vitnaði í biblíuna, en mér var kennt, að það væri of seint að iðrast eftir dauðann. Hann er dauður hér á þingi og fær ekki inngöngu aftur, frá sjónarmiði réttlætisins Hvað sem lítur hinni lagalegu hlið þessa máls, þá vil ég aðeins taka það fram, þeim til leiðbeiningar, sem telja, að í stjskr. og kosningalögin skorti ákvæði, til þess að heimila brottvikningu þm., að ef það vantar, þá er það af sömu ástæðu sem greint er frá í Rosciusarræðu Ciceros. Þar segir frá manni, sem ákærður er fyrir föðurmorð. En í lögum Rómverja voru engin hegningarákvæði til um þann glæp. Það var ekki gert ráð fyrir, að slíkur glæpur gæti átt sér stað. Þar sem þessi hv. fvrrv. uppbótarþm., sem hér um ræðir, hefir sagt sig úr flokki, er sjálfsagt, að hann segi af sér þingmennsku sem uppbótarþm. Sé ekki greinilegt lagaákvæði til um þetta atriði, þá stafar það af því, að það hefir ekki verið gert ráð fyrir, að þess þyrfti. Það hefir verið álitið sjálfsagt, að uppbótarþm., sem segir sig úr flokki, láti sér af sjálfsdáðum skiljast, að hann hefir glatað rétti til þingsetu nema hann síðar nái nýrri kosningu. Þetta er augljóst mál. Ég sé af rökst. dagskrá hv. meiri hl., að hann muni ætla að leggja því lið sitt, að hv. fyrrv. 2. landsk. sitji áfram á þingi, og harma ég það mjög að því er Alþfl. snertir. Hann og Sjálfstfl. unnu lengi saman í góðri einingu að kjördæmamálinu. Þeim var báðum ljóst, að ekki var lengi hægt að una við hina gömlu og ranglátu kjördæmaskipun. Þeim var báðum ljóst, að það væri nauðsynlegt að kippa fótunum undan ranglætinu í þessu máli, til þess að lýðræðinu í landinu yrði ekki hætta búin. Fyrir þessari skoðun börðust þessir flokkar saman, — fyrir þeim breytingum og réttarbótum í þessu efni, sem náðu lögfestu með stjórnarskrárbreytingunni. Sú skoðun var uppi í þeim umr., að nauðsynlegt væri að afnema hið úrelta kjördæmakosningafyrirkomulag, og margir sögðu, að aldrei næðist fullkomið réttlæti öruvísi í þessu efni. Þetta var ekki gert, en í staðinn, og til þess að fullnægja kröfum réttlætisins, var komið á því skipulagi, að flokkarnir fengju uppbótarþingmenn í því skyni að tryggja sem bezt, að fulltrúafjöldi hvers flokks á Alþingi væri í sem beztu samræmi við atkvæðatölu flokkanna við kosningar. Það var allt frá öndverðu hugsunin í þessu efni, að þessir þm. skyldu vera eign flokkanna. Af því leiðir náttúrlega, að þegar það kemur fyrir, að uppbótarþm. fer úr flokki sínum og það jafnvægi raskast, sem verið hefir eftir kjördag milli þingmannaðölu og kjósendafylgis, þá verður hann að fara af þingi. Mér dettur ekki í hug að halda, að maður eins og hæstv. forseti líti í rauninni þannig á, að lögin heimili ekki brottvikningu þessa óskabarns úr sölum Alþingis, og ég tel víst, að Alþfl. hljóti, svo framarlega sem hann vill muna eitthvað af því, sem hann hefir sagt bæði á þingi og á opinberum fundum um þetta lýðræðismál, að líta svo á, að þessi hv. fyrrv. þm. eigi að víkja af þingi. Til þess að gefa Alþfl. sérstaklega tækifæri til þess að halda trúnað við lýðræðishugsjónirnar, alveg án tillits til ákvæða laganna, mun ég bera fram brtt. við dagskrártill. hv. meiri hl. n. Á eftir orðunum: „að taka kæruna til greina“ vil ég að komi: „enda þótt það telji, að þingmaðurinn ætti að sjá sóma sinn í að leggja niður þingmennsku af sjálfsdáðum“. Ég tel, að sú skylda hvíli á þessum hv. fyrrv. þm. að fara af þingi og bæta þar með fyrir það, sem löggjöfinni kann að hafa láðzt að taka fram í þessu efni. Ég held, að hann hefði af því heiður, en ekki skömm. Þingsaga hans er orðin löng og sjálfsagt fleira í henni, sem gleymist, en það, sem geymist. Hann var að kvarta undan því, að Bændafl. hefði verið honum eitthvað meinlegur. Það hafa þá líklega fleiri orðið honum ónotalegir. Hann var og að víkja því að Sjálfstfl., að hann hefði eitthvað verið að hnýta í sig. Það hefir ekki verið in þess að hann hafi átt það skilið. En það eru enn aðrir, sem hafa bent í hann hnútum, t. d. sjálfur form. Framsfl. í Tímanum frá 18. júní segir hann t. d. um þennan mann: „að gamalmenni eða menn, sem ætla sér að standa í hagsmunasambandi við 23 fyrirtæki til almennra nota, séu lokkuð sem flugumenn út í ósvinnu“. — Þarna er honum óbeinlínis núið því um nasir, að hann standi í eiginhagsmunatogstreitu út af fyrirtækjum, sem hann kann að hafa hagsmuna að gæta í. Mörg fleiri dæmi mætti tína til úr þessari grein, sem ég nenni ekki að rekja, en þó vil ég minnast á það, sem stendur í niðurlagi greinarinnar. Þar segir, að ,ef þessi gamli maður skilji ekki, hvað til síns sóma heyrir, þá verði heilbrigð skynsemi almennings að grípa í taumana. Annars eigi að láta gamla menn fá krossa og titla“.

Tek ég þetta fram aðeins til þess að sýna fram á, að það eru sannarlega ekki sjálfstæðismenn, sem eru með ónot í garð þessa hv. fyrrv. þm., og ekki heldur Bændafl., en aftur á móti Framsfl. Þetta er vissulega nokkuð hörð ádeila og vafalaust ekki að öllu leyti að maklegleikum, en ef til vill heldur ekki með öllu að ósekju. Gamla manninum er boðið upp á krossa og eiginhagsmuni. Ég veit ekki, hvað skeð hefir bak við tjöldin. En það veit ég, að gamli maðurinn fékk kross, að frv. það, sem stjórnin ætlaði að flytja um einkasölu á lyfjum, en sú verzlun er sérstakt hagsmunamál gamla mannsins, — hefir ekki komið fram, og loks að gamli maðurinn er nú búinn að svíkja sinn flokk og genginn í lið með þeim, sem gáfu honum krossinn og veifuðu lyfjaeinkasölunni yfir höfði hans. Mér finnst sannarlega ástæða til fyrir þennan hv. fyrrv. þm. að meta mest sóma sinn og enda ekki þingmennsku sína með „flugumennsku“, en taka í þess stað afleiðingunum af því, að hann er ekki lengur í aðstöðu til að halda áfram samvinnu við þá menn, sem hann barðist með, þegar hann fékk þingsætið Ég geri nú ekki ráð fyrir, að þessi maður grípi til þess ráðs að fara af þingi, nema þá ef svo skyldi vilja til, að einstakir þingm. í stjórnarflokkunum, og þá fyrst og fremst fulltrúar Alþfl. hér á þingi, veittu honum hjálp til þess með því að samþ. brtt. mína. Það er ótrúlegt, að Alþfl. láti undir höfuð leggjast að sýna trúnað sinn við þá hugsjón, sem að sjálfs hans sögn var þungamiðja baráttunnar um lýðræðisréttarbót þá, sem þjóðin fékk með stjskr.breytingunni, og ætti hann því að gefa þessum hv. fyrrv. þm. nauðsynlega hjálp til þess að fullnægja hugsjón stjskr. og bjarga því, sem bjargað verður af hans eigin sóma.