18.02.1935
Efri deild: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

9. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Jónsson:

þegar það mál, sem hæstv. fjmrh. gat um, var til umr. hér í hv. d., hreyfði ég því, að það væri ekki fullnægjandi eins og frá því var gengið, því að jafnframt því að afnema lántökuheimild fyrir ríkissjóð í l. nr. 19 9. jan. 1935 þyrfti að setja ákvæði um, að lántökuheimild í lögum um fiskimálanefnd skyldi rýrð um þá upphæð, sem af þessu láni yrði notuð í þeim tilgangi, sem þar getur í 13. gr. Ég skaut því þá til hæstv. fjmrh. að koma slíku ákvæði í þetta frv., sem hann boðaði þá, að hann mundi flytja. En ég sé að hann hefir ekki gert það, og hafði ég því hugsað mér að bera fram skrifl. brtt. um það. En ég hygg, að réttara sé að fara fram á, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til fjhn. og hún gæti þá athugað, hvort ekki væri hægt að koma þessu sem haganlegast fyrir. Þó að hæstv . fjmrh. hafi að vísu lofað því, að þessu máli yrði lokið í dag, hygg ég, að mér sé óhætt að leysa hann frá loforði, þar sem hann er líka búinn að koma því gegnum aðra deildina.

Ég vil einnig benda á, að þetta frv. er ekki í sem æskilegustu formi. Það hefir verið prentuð upp sem 1. gr. í þessu frv. 2. gr. úr hinu frv. alveg orðrétt. Hún er eðlileg eins og hún stendur í fyrra frv., en að hafa hana svo orðaða sem 1. gr. í frv. er ekkert lagaform. Þetta mætti lagfæra um leið og athugað yrði, hvort hinu mætti ekki koma haganlega fyrir með því aðeins að setja málið í fjhn.

Mér þætti vænt um að heyra, hvort hæstv. ráðh. tekur ekki vel í þetta. Annars mundi ég bera fram skrifl. brtt., sem fari í þá átt, sem ég vil hafa það.