14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

Kæra um kjörgengi

Jónas Jónsson1):

Margir þm. hafa nú rætt um þetta mál. Íhaldsmenn og varalið þeirra stynur þungan út af því að geta ekki að lögum svipt einn af þm. umboði sínu. Mér þykir við eiga að skýra stuttlega harmsögu þessara manna.

Það er vitanlegt, að hlutafélagið Kveldúlfur stofnaði til klofnings þess í Framsfl., sem Jón Jónsson hefir staðið að. Tilgangurinn var sá með þessum liðhlaupum, að vega að baki Framsfl. og ná meiri hl. í þinginu fyrir hagsmuni glæframanna og spekúlanta. Í þessu skyni var reynt að fá í hverri sýslu menn til framboðs fyrir varaliðið, sem höfðu persónulegt fylgi og mætti búast við, að gætu dregið framsóknarmenn frá flokki sínum. Upp úr þessum smábrotum ætlaði íhaldið sér að fá nokkra uppbótarþingmenn, er það réði fullkomlega yfir. Og til að ná þessu takmarki lánaði Ólafur Thors meginið af fylgi Hannesar Jónssonar til að koma honum að. Síðan ætlaði Kveldúlfur svo sem að sjálfsögðu að hafa allar tekjur, sem inn kæmu á „móðurskipið“. Og gremjan gegn Magnúsi Torfasyni kemur öll af því, að hinir lævísu útreikningar íhaldsins hafa strandað á skapfestu hans.

Jón Jónsson og Þorsteinn Briem lögðu megináherzlu á að fá sýslumann Árnesinga til framboðs þar í sýslu. En þeir ætluðu að hafa hann að leiksoppi. Þeir ætluðu honum að veikja Framsfl. svo mikið, að hann tapaði báðum þingsætunum í sýslunni, en íhaldsmenn kæmu í staðinn. Og að sjálfsögðu ætluðu þeir sýslumanni að falla. Hann átti að vera fórnarlamb þeirra félaga, Jóns Jónssonar og Þ. Briems. Hann átti að falla sjálfur, fella Framsóknarmenn í kjördæmi, en gefa yfirboðurum sínum, Kveldúlfi og piltum hans, dávænan forða af atkvæðum handa einhverjum íhaldsfylgifiskum.

Sýslumanni Árnesinga mun ekki hafa verið ókunnugt um innræti þessara manna. Hann þekkti þá úr Framsóknarfl. Hann vissi að allir þeir þingmenn, sem klofið höfðu sig út úr flokknum, höfðu verið mestu meinsmenn hans í þingflokknum. Honum var fullljóst, að Jón Jónsson hafði átt aðalþátt í að svíkja hann í tryggðum við forsetavalið 1930, og að öll framkoma Jóns Jónssonar og félaga hans hafði gagnvart sýslumanni verið samfelld keðja af undirferli og móðgunum.

Þegar Jón Jónsson byrjaði að biðla til hans sem frambjóðanda í því skyni að leika með hann, virðist sýslumaður hafa hugsað, að óvíst væri, hvor þeirra yrði ráðkænni eða slyngari. Sýslumaður sá, að alveg eins gat farið svo, að hann yrði giftudrýgri. Árnessýsla var sterkt kjördæmi og hann átti þar marga vini. Sýslumaður reiknað með því, sem varð, að hann hlyti að verða með þeim hæstu, ef ekki hæstur af öllum þeim, sem fellu, en hafts skilyrði til að vinna uppbótarsæti. Sýslumaður var allfús til þingsetu, og hafði alveg sérstaklega ánægju að því að verða á þennan hátt við ósk þeirra manna, sem árum saman höfðu setið um að gera honum alla þá skapraun, sem þeir gátu. Í þessu tafli gat hann vænzt þess, að Jón Jónsson félli á gamalli og nýrri lævísi og sviksemi í garð hans.

Óheilindi Jóns Jónssonar og íhaldsins kom glöggt fram þegar talningu var lokið í Árnessýslu og set var um hina háu atkvæðatölu sýslumanns. Varð þá hið eina hálmstrá svokallaðra flokksmanna sýslumanns, en raunverulega verstu fjandmanna hans, að Stefán í Fagraskógi fengi hærri atkvæðatölu og kæmist að. Hann var íhaldsmaður, og honum treystu bæði íhaldsmenn og varaliðið. Meðan verið var að telja í Eyjafirði var öll þjóðin milli vonar og ótta. Svafar Guðmundsson sýndi óheilindi sín gagnvart sýslumanni með því að verða nær yfirbugaður af hryggð og reiði, þegar hann sá, að sýslumaður var hærri en Stefán Stefánsson. Það var þess vegna ekki farið í grafgötur með það, að meining íhaldsins var að svíkja sýslumann og hafa hann að forhleypismanni.

Með kosningasigri sínum, eins og hann bar að, var sýslumaður búinn að jafna metin við Jón Jónsson og íhaldið, sem hafði ætlað að bæta einni misgerð við margar eldri, með því að nota hann til að draga atkvæði til framdráttar Mbl.-stefnunni. En þegar kom til stjórnarmyndunar, gafst honum tækifæri til að minna Ásgeir Ásgeirsson á fallvaltleika veraldarlánsins. Ásgeir Ásgeirsson hafði af hégómleika og vöntun á góðum siðum gerzt til að vega að sýslumanni Árnesinga innan Framsfl. 1930 og fengið að launum þá tylft af krossum, sem nú eru hans mesta skraut. Ásgeir Ásgeirsson hafði boðið sig fram utan flokka 1934 í þeirri trú, að svo kynni að muna á flokkunum, að hans atkvæði eitt gæti ráðið úrslitum um stefnu og stjórnarmyndun. Mun hann þá hafa talið líklegt, að hann gæti gert sig ærið dýrkeyptan um stuðninginn. En þegar Magnús Torfason komst að, á þann hátt, sem orðið var, og með þá forsögu, sem hann hafði um æfilanga baráttu við íhaldið, þá var auðséð, að hann myndi í helztu stefnumálum veita umbótaflokkunum stuðning, og það af heilum hug. En þá var sýslumaður Árnesinga síðasta atkvæðið, en ekki þm. Vestur-Ísfirðinga. Um leið var hann orðinn gildislítill á markaðinum, svo gildislítill, að hann fór í skemmtiferðir til fjarlægra landa um þingtímann, af því hans var ekki þörf, og engin aðstaða til verzlunar. Leikar höfðu þá farið svo, að í sjálfum kosningunum höfðu íhaldsmenn og varalið þeirra fallið á sínu eigin bragði gagnvart sýslumanni Árnesinga, en við stjórnarmyndunina hafði hann, með því einu að vera trúr sinni fornu lífsskoðun gert mögulegt fyrir umbótastjórn að starfa, án þess að vera háð verzlun um hvert mikilsvert málefni við þann mann, sem hafði gert sig að forsætisráðherra fyrir Framsfl. 1932, til að leysa kjördæmamálið1933 og 1934 eftir óskum íhaldsins og þvert ofan í óskir Framsfl. eins og þær komu fram í kosningum 1931. Ásgeir Ásgeirsson hafði tekið við stjórnarflokki, sem taldi 23 menn. Eftir 1 ár var hann búinn að tapa 6 þingsætum, og eftir eitt ár þar frá laumaðist hann úr þeim flokki, sem hann átti að þakka öll sín metorð og veraldargengi, laumaðist burtu síðasta dag áður en framboðsfrestur var úti, til þess að hinir gömlu samherjar gætu ekki boðið fram á móti honum. Eftir kosningarnar ætlaði Ásgeir Ásgeirsson að vera með þeim, sem mestan vildi gera veg hans, eins og málum var komið.

En sigur sýslumanns Árnesinga skar sundur þennan veika en litljóta valdabaráttuþráð Ásgeirs Ásgeirssonar. Það var eins og hulin hönd væri að kenna hinum vel krossaða og heppna veiðimanni frá 1930, að hann hefði þá brotið of mikið af sér til þess að sleppa skaðlaus frá því í kreppusjóði mannlegs lífs.

Þegar ég lít á gang þessa máls, þykir mér sigurför sýslumanns Árnesinga helzt minna á giftuspor kafarans í hinu fræga kvæði Schillers. Þegar hringnum var bent ofan í hið æðandi sund, þá mæltu öll rök með því, að hverjum, sem reyndi að synda eftir hringnum myndi bani búinn. En kafarinn fór. Straumurinn bar hann að kóralgrein, þar sem hringurinn hékk, mitt í djúpinu. Og síðan kom annar straumur og bar hann upp til ljóss og lífs. Sýslumaður Árnesinga fór eins. Hann kafaði í hið hættulega djúp kosninganna. Hann var frá hálfu sinna svokölluðu samherja, varaliðsmanna, umsetinn af jafngeigvænlegum rándýrum og kafarinn í hafdjúpinu. En giftan var með sýslumanni Árnesinga. Straumurinn bar hann til lífs og áhrifa. Og í hendinni hafði hann dýrgripinn, kjörbréfið, sem átt hefir svo mikinn þátt í gæfu og gengi Íslendinga hin síðustu missiri.

Íhaldsmenn og varalið þeirra hefir fyrr og síðar gert Magnúsi Torfasyni allt til vansæmdar og skaða, sem þeir hafa getað. Og ástæðan er sú, að hann er fæddur umbótamaður og getur aldrei orðið annað. Þeir ætluðu að hafa hann að leiksoppi, til framdráttar afturhaldinu. En þeir áttu að vita, að það var tilgangslaust. Með einhuga baráttu langrar starfsæfi hafði Magnús Torfason sýnt og sannað öllum landslýð, hver var stefna hans. Þess vegna kemur íhaldinu og varaliði þess í koll, ef það hefir einhver óþægindi af því að ráðgera, að hann endi starfsdaga sína með því að vera þjónustumaður afturhalds og spillingar í landinu. Í skiptum við sýslumann Árnesinga hafa gamlir og nýir andstæðingar hans fallið óhelgir á eigin tilverknaði.

1) Handrit innanþingsskrifara að ræðu þessari hefir glatazt, og er ræðan eins og hún birtist hér samin af ræðumanni eftir minni.