21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

42. mál, póstlög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hefi séð ástæðu til að flytja brtt. við þetta frv. hér í d., og er það sama till. og flutt var í hv. Nd., en var ekki samþ. þar.

Ég lít þannig á um þetta mál, eins og önnur, sem snerta fjárhagsafkomu ríkissjóðs eða rýra tekjustofna hans, að það sé óviðkunnanlegt eftir að búið er að ganga frá fjárl. að koma með brtt., er valda tekjurýrnun. Hefði ég kunnað betur við, ef þessi lækkun póstgjalda var talin nauðsynleg, að geyma þessa brtt. þar til rædd og ákveðin voru fjárlög fyrir árið 1936, svo hún kæmi þá fyrst til framkvæmda. En þó að ég hafi þessa skoðun, að það sé rangt að hreyfa við þessu, þar sem búið er að reikna með þessum tekjum í fjárl., þá vil ég ekki beita mér á móti málinu, heldur hefi ég flutt till. um að fara hér milliveg, þannig, að eftir minni till. yrði tap ríkissjóðs helmingur þess, sem búast mætti við eftir frv., eða um 10 þús. kr.

Ég tel óþarft að hafa mörg orð um þetta, en ég tel óviðkunnanlegt að vera að kroppa af ríkissjóði þær tekjur, sem honum hafa verið aflaðar af Alþingi. Hitt væri sök sér, að samþ. þetta fyrir árið 1936, því að þá mætti gera ráð fyrir þeirri tekjurýrnun við samningu fjárl. fyrir það ár.

Þar að auki vil ég benda á það, að mér finnst ekki sanngjarnt að hafa sama flutningsgjald fyrir þennan varning vetur og sumar, því að þótt þessi flutningur fari nú fram að miklu leyti á bílum, þá fer því fjarri, að þeir séu eins auðveldir á vetrum eins og á sumrum.

Ég vil líka taka það fram, að ég álít rangt að samþ. till., sem raska verulega niðurstöðu fjárl. frá því, sem áætlað er, nema þá um leið séu fluttar till., sem vega þar á móti. Ég álít því, að ekki sé rétt að samþ. þetta, nema þá fyrir árið 1936, en þó mætti sætta sig við þetta, ef brtt. mín yrði samþ., því að þá yrði tjónið ekki nema 10000 kr.