21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

42. mál, póstlög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hæstv. fjmrh. Hann bendir á, að þetta sé svo mikil tekjurýrnun fyrir ríkissjóð. Það er rétt, að þetta nemur um 20000 kr. En eins og hv. frsm. benti á, þá gæti þetta um leið þýtt meiri flutninga, sérstaklega á blöðum, sem mundi þá að nokkru leyti vega upp á móti þessu.

En hvað sem því líður, að ekki megi ganga langt í því að rýra tekjustofna ríkisins, þá verðum við þó að viðurkenna það, að hér getur samt verið um undantekningar að ræða. Ég hygg, að allir þeir, er þetta mál athuga, geti orðið sammála um það, að burðargjald af blöðum, og jafnvel tímaritum líka, sé nú svo hátt, að það geti staðið þeim fyrir þrifum, og eins og hæstv. fjmrh. veit, þá eru þau blöð, sem send eru út um land frá útgáfustöðum sínum, ekki borguð hærra en sem svarar flutningskostnaðnum einum saman, sé mjög dýrt að koma þessum blöðum út um land. Þá getur jafnvel farið svo, að sá kostnaður reynist útgáfunum um megn.

Þá hefir einnig verið bent á það, hversu miklu betri farartæki eru nú orðin. Meginhlutinn af öllum hlaðapósti fer með skipum og landflutningarnir mestmegnis á bílum, en þegar gjaldskráin var samin, var áreiðanlega gert ráð fyrir, að nota þyrfti hesta að miklu leyti, og það sýnir manni, að það hefir ekki verið meiningin, að ríkið hagnaðist á þessum flutningum.

Hv. frsm. var að tæpa á því, hvort n. mundi ekki vilja flytja till. um, að l. kæmust ekki til framkvæmda fyrr en um næstu áramót. Ég skal ekki segja, hvað aðrir nm. vilja, en ég er því mótfallinn. Ég álít, að 20000 kr. sé ekki of mikil ívilnun blöðum og tímaritum til handa, því að það er vitanlegt, að kreppan gerir vart við sig hjá blaðútgáfum ekki síður en annarsstaðar.