14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Kæra um kjörgengi

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er misskilningur hjá hv. þm. S-Þ., að þeir, sem halda því fram, að það sé lagalega rangt að láta Magnús Torfason eiga sæti áfram á Alþingi, hafi gefizt upp. Andmælendur okkar, hv. þm. S.-Þ. og félagar hans, hafa ekki getað fært neitt það fram máli sínu til stuðnings, er sanni það að hann eigi þingseturétt. Þeir telja það t. d. fjarstæðu eina, að um tvær tegundir þingmanna geti verið að ræða. Ef þessir hv. þm. vildu athuga fortíðina, hlytu þeir að sannfærast um, að þessi skoðun þeirra er röng, því að þingið hefir jafnan verið skipað tveimur tegundum þm. allt frá því að það var endurreist, og er enn, þar sem nú eiga sæti á því bæði kjördæmakjörnir og landsk. þm. Þetta fyrirkomulag er ekki aðeins hér á landi, heldur er það svo um nær allan heim, að þingin séu skipuð mönnum með mismunandi kjörgengisskilyrðum. Að hér sé um fjarstæðu að ræða, eru því firrur einar. Það vill nú líka svo vel til, að hjá okkur taka lögin af öll tvímæli um það, að það gegnir allt öðru um landskjörna þm. en kjördæmakjörna, þar sem 133. gr. kosningalaganna gerir beinlínis ráð fyrir því, að hægt sé að svipta þingmenn kjörbréfi, án þess þó, að hann hafi misst kjörgengisskilyrði samkv. 28. gr. stjskr. Þetta sýnir alveg ótvírætt, að löggjöfin gerir ráð fyrir tveimur tegundum þingmanna, sem hafi mismunandi réttaraðstöðu í þinginu. Sé það ennfremur athugað, hvernig þingmennirnir eru kosnir, verður hið sama upp á teningnum. Uppbótarþingmenn ná kosningu fyrir það eitt, að svo og svo mörg atkv. hafa verið greidd flokknum. Þeir eru því kosnir með flokksatkv. að meira eða minna leyti, því að enginn þeirra fær persónulega nógu mörg atkv. til þess að ná kosningu. Kjósandinn, sem greiðir flokknum atkv., veit því ekkert, hvaða mann hann er að kjósa. Uppbótarþingmaður, sem þannig kemst inn í þingið, á því engan siðferðislegan rétt til þingsetu eftir að hann hefir orðið viðskila við flokk sinn. Það skiptir vitanlega engu máli, hvaða flokkur hér á hlut að máli, hvort það er frekar „góður“ eða „slæmur“ flokkur. Hinar almennu reglur verða að gilda hér. Segi ég þetta hér sakir þess, að mér virtust það vera helztu rökin gegn þessu hjá hv. þm. S-Þ., að Bændafl. væri svo slæmur flokkur, að hann ætti ekki skilið að njóta hins sjálfsagða réttar síns.

Um það hefir nokkuð verið deilt, hvað séu lög og hvað sé sanngjarnt í slíku tilfelli sent þessu. Þó hefir enginn treyst sér til þess að mótmæla því, að það sé réttlátt, að sá þm., sem á þing er kosinn fyrir flokksatkv., eigi að víkja af þingi, þegar hann hefir svikið flokk sinn. Hv. þm. S.-Þ. hefir komizt lengst í andmælum gegn því, þar sem hann hefir reynt að mótmæla þessu á þeim grundvelli, að í Bændafl. séu svo vondir menn, sem svo illa hafi breytt gagnvart Framsfl., að þeir geti ekki átt neina siðferðislega kröfu til réttlætis í þessu máli eða öðru.

Hvort sem mál þetta verður rætt lengur eða skemur og hvaða skýringar sem hv. þm. S.-Þ. kann að bera fram máli sínu og samherja sinna til stuðnings, þá er enginn vafi á því, að réttarmeðvitund almennings krefst þess að uppbótarþingmaður fylgi flokki sínum að málum, eða víki af þingi ella, því að hann er ekki kosinn persónulegri kosningu, heldur gegnum flokkinn. Í þessu sambandi vil ég minna á skylt tilfelli, sem kom fyrir nú ekki alls fyrir löngu í bæjarstjórn Reykjavíkur. Eins og marga mun reka minni til, þá sagði einn bæjarfullfrúi Alþfl., Sigurður Jónasson, sig úr Alþfl. Strax daginn eftir kemur fram sú krafa í blaði flokksins, að hann leggi niður bæjarfulltrúaumboð sitt og játi jafnframt af störfum í niðurjöfnunarnefnd, en í þá nefnd hafði hann einnig verið kosinn af flokknum. Auk þessa fékk hann fleiri áskoranir um að leggja niður umboð sitt. Nú var það ekki svo, að maður þessi væri kosinn í bæjarstjórnina á svipaðan hátt og uppbótarþingmaður er kosinn til Alþingis. Það vissu vitanlega allir, sem greiddu Alþfl. atkv. við bæjarstjórnarkosningar þær, sem Sigurður var kosinn í bæjarstjórnina, að þeir voru að kjósa Sigurð Jónasson. Það er því óneitanlega töluvert merkilegt, að Alþfl., eftir að hafa tekið þessa afstöðu til þessa atriðis, skuli nú geta gengið þvert á móti sjálfum sér og greitt atkv. með því, að Magnús Torfason skuli eiga að sitja áfram á þingi. Og þetta er þeim mun óskiljanlegra, þegar þess er ennfremur gætt, að stjórnmálaflokkur þessi hefir hvað eftir annað lýst yfir því, að hann vilji vinna að þeirri breyt. á dómstólunum, að dæmt verði sent mest eftir réttarmeðvitund almennings. Og flokkurinn þóttist einmitt vinna að þessu með breyt. þeirri, sem gerð var á hæstaréttarlögunum síðastl. vetur. Nú er það ekki svo, að hér sé á nokkurn hátt verið að fara fram á það, að Alþingi dæmi í þessu máli gegn lögum eða réttarmeðvitund almennings, því að það er ekkert það, hvorki í kosningalögunum eða í stjórnarskránni, sem mælir gegn því, að uppbótarþingmaður víki af þingi um leið og hann hefir orðið viðskila við flokk sinn. Þvert á móti hnígur allt að því, að þess sé beinlínis krafizt. Og eigi Alþingi að dæma eftir réttarmeðvitund almennings, þá er enginn vafi á því, að því ber að úrskurða Magnús Torfason út úr þinginu. Enda hefir enginn treyst sér til að andmæla því.

Hvað snertir ákvæði stjskr., þá kveða þau skýrt á um það, að uppbótarþingsætunum eigi að úthluta til jöfnunar á milli þingflokka. Það er því augljóst, að uppbótarþingmaður, sem farinn er úr flokki sínum og orðinn andvígur honum, getur ekki uppfyllt það skilyrði stjórnarskrárinnar að vera til jöfnunar fyrir þann þingflokk gagnvart öðrum þingflokkum. Slíkur maður á því samkv. stjskr., kosningalögunum og réttarmeðvitund almennings umsvifalaust að víkja af þingi.