26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

37. mál, lögreglusamþykktir utan kaupstaða

Frsm. (Thor Thors):

Það var ekkert minnzt á þetta frv. við 2. umr., en þar sem ég er frsm. allshn., vil ég geta þess, að hér er um nýmæli að ræða, þó það sé smávægilegt. Með þessu frv. er sýslunefndum heimilað að setja sérstaka lögreglusamþykkt, sem gilda á fyrir alla sýsluna utan kaupstaða. En samkv. núgildandi lögum eru það hreppsnefndir, er gera slíkar samþykktir, hver fyrir sitt sveitarfélag. Það á að vera óþarft, af því að samskonar lögreglusamþykkt virðist geta gilt fyrir öll sveitarfélög, a. m. k. innan sama sýslufélags. Þess vegna er nægilegt, að sýslunefndin geri eina slíka samþykkt fyrir hvert hérað, og eru þá hreppsnefndir jafnframt lausar við það mál.