21.03.1935
Neðri deild: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

10. mál, jarðræktarlög

Flm. (Jón Pálmason):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 12, er gamall kunningi hér á Alþ., því að frv. sama efnis hafa nokkrum sinnum áður verið lögð fyrir hv. Alþ.

Eins og menn sjá, er þetta lítið frv. fyrirferðar. Þó fjallar það um eitt af mestu ágreiningsmálum þeirra, er landbúnað stunda, því að afdrif þess ákveða það, hvernig stjórnarfyrirkomulagi Búnaðarfélags Íslands verður háttað. Hvort það félag verður frjáls stofnun, sem að mestu leyti er óháð þingi og ríkisstj., eða hvort þing og stj. hafa þar öll yfirráð.

Saga þessa máls er að sjálfsögðu flestum hv. þdm. kunn og er þannig, að þegar jarðræktarl. voru samþ. á Alþ. 1923, höfðu í upphafi komið fram till. og kröfur um það frá þáverandi landbrh., að Búnaðarfélag Íslands yrði gert að einskonar skrifstofu undir ráðuneytinu, sem samsvaraði vegamálaskrifstofunni, vitamálaskrifstofunni o. s. frv. En sú miðlunarleið var þá farin, að landbn. þingsins tilnefndu meiri hl. í stj. Búnaðarfélags Ísl. Eftir því sem ég hefi komizt næst, hefir á þeim tíma verið haldið linlega á þeim kröfum, að Búnaðarfél. Ísl. skyldi vera frjáls stofnun stjórnarfarslega. Enda kom það þá brátt í ljós, að bændur landsins, búnaðarsambönd og búnaðarþing voru ekki ánægð með breyt. þessa á stjórn Búnaðarfélagsins, því að þessir aðilar hafa margsinnis komið með kröfur um, að þessu stjórnskipulagi yrði breytt aftur þannig, að Búnaðarfél. Ísl. yrði að því leyti frjáls bændastofnun, að búnaðarþing kysi alla í stj. þess. Samkv. áskorunum frá bændum og búnaðarsamböndum og a. n. l. frá búnaðarþingi hafa verið fluttar á Alþ. till. til breyt. í þessu efni, sem jafnan annaðhvort hafa dagað uppi, eða þær hafa verið drepnar með meiri hl. atkv. Í þessari baráttu hefir það undarlega komið í ljós, að ýmsir þeir, sem þá og síðan hafa talið sig vera forsvarsmenn íslenzkra bænda og talið sig vilja hafa þeirra frelsi sem mest, þeir hafa ekki sýnt nógu mikla einlægni til að fylgja þessu máli svo fram, að bændur mættu verða frjálsir að því að ráða stj. þessarar stofnunar, heldur hefir þeirra fleipur gengið í þá átt að halda fram skoðunum, sem þeir í verkinu sýndu, að þeim var engin alvara með.

Aðalmótbárur, sem komið hafa fram gegn því, að stj. Búnaðarfél Ísl. yrði komið í það horf, sem farið er fram á í frv. þessu, hafa jafnan verið þær, að það væri eðlilegt og sjálfsagt, að Alþ. hefði sem nánast eftirlit með því, hvernig því fé væri varið, sem Búnaðarfél. Ísl. fengi til úthlutunar frá ríkinu. Þessi upphæð hefir á undanförnum árum verið kringum 200 þús. kr.

Vilji bændastéttarinnar kemur fram hjá þeim fulltrúum, sem hún ein kýs á búnaðarþing. Á bak við Alþ. standa allar stéttir þjóðfélagsins. Má segja, að nokkuð mikið vantraust sé hjá Alþ. á þeim, sem landbúnað stunda, ef Alþ. trúir þeim ekki fyrir því að úthluta þeirri fjárupphæð, sem hér er um að ræða. Um þessa sérstöku hlið málsins skal ég að svo stöddu ekki hafa fleiri orð.

En hvernig er aðstaðan í þessu efni nú? Eins og hv. þdm. er kunnugt var á síðasta þingi flutt í Ed. frv. shlj. því frv., sem hér liggur nú fyrir. Það var þá svæft í n. og þar með var sýnt, að engin alvara hefir verið á bak við það hjal, sem hjá mörgum hefir heyrzt um það, að bændastéttin ætti að hafa með sér frjálsan félagsskap.

Mér þótti sjálfsagt að gera tilraun um það hér í hv. d., hvort hugarfar manna væri nú hér hið sama og það var í Ed. í fyrra, hugarfar þeirra manna, sem í blöðum og á mannfundum utan Alþ. hafa haldið því fram, að félagsskapur bænda eigi að vera frjáls og óháður. Þetta hlýtur að koma í ljós við meðferð þessa máls hér í hv. d.

Það er skoðun mín, að Búnaðarfélag Íslands eigi að vera sem frjálsastur og óháðastur stéttarfélagsskapur íslenzkrar bændastéttar. Búnaðarfélag Íslands er, eins og kunnugt er, ekkert annað en miðstöð þeirra samtaka, sem gerð eru með búnaðarfélögum og búnaðarsamböndum á öllu landinu, og innibindur innan sinna vébanda flesta þá menn, sem íslenzkan landbúnað stunda. Hinsvegar á Búnaðarfél. Ísl. að vera og hefir verið félagsskapur, sem ásamt því að gera rannsóknir og athuganir á náttúruskilyrðum okkar lands leiðbeinir um það, hvernig bezt sé að reka þennan atvinnuveg samkv. þeim upplýsingum, sem vísindin veita.

Ég lít svo á, að búnaðarfélagsskapurinn eigi einnig að sjálfsögðu að vera hagsmunafélagsskapur bænda til þess að sjá um allsherjar samband landbúnaðarmanna, þannig að þau samtök tryggi það, að þjóðfélagsvaldinu sé á hverjum tíma beitt þannig, að sem bezt séu tryggðir hagsmunir þessa elzta, tryggasta og almennasta atvinnuvegar, sem stundaður er á þessu landi. Ég segi elzta og tryggasta atvinnuvegar, og miða þá ekki við það, að landbúnaðurinn framleiði svo sérstaklega mikil verðmæti til útflutnings. En hitt er víst, að á leiðum hans eru bezt skilyrði til þess, að fólk, sem hann stundar, geti lifað af framleiðslu þeirri, sem landið sjálft skapar.

Það hefir verið mjög mikið um það talað, að togstreita væri á milli stjórnmálaflokkanna í landinu um þessa hluti, en út í það mun ég ekki fara nú, nema sérstakt tilefni gefist til þess. En ég legg áherzlu á það, að þessi félagsskapur á að vera algerlega óháður því, hvaða skoðanir menn hafa á ríkjandi stjórnmálastefnum í landinu. Það hefir verið mjög mikið talað um það undanfarna daga, utan þessara sala, að nauðsynlegt væri að stofna allsherjar samband meðal íslenzkra bænda, utan Búnaðarfélags Íslands, sem væri ópólitískt. Ég hefi ekki fengið neinar sönnur fyrir því, að mikil alvara væri á bak við það tal. En ef þar er alvara á bak við, þá ætti hún að sjást í því, að þeir menn, sem talað hafa svo utan þings, sýni það í verkinu, að þeir vilji, að Búnaðarfél Ísl. sé frjáls stofnun, sem ekki sé sagt fyrir verkum um það, hvernig það eigi að úthluta því fé, sem ríkisvaldið fær því í hendur, eða það fær á annan hátt, því að eins og kunnugt er, hafa Búnaðarfél. Ísl. verið sett allhörð skilyrði um það, hvað það eigi að gera og hversu það eigi að vera undirgefið ríkisvaldinu til þess að það fái áfram það fé, sem því hefir verið veitt árlega í fjárl. Um þetta stendur nú, svo sem kunnugt er, allhörð deila, sem er ofarlega í hugum manna, af því að búnaðarþing stendur yfir og þar á að ráða til lykta því, hver verði forstjóri okkar búnaðarmála og hversu þeim málum verði yfirleitt skipað. Vegna þessara ástæðna legg ég á þá ósk ríka áherzlu, að afgreiðslu þessa máls verði hraðað, hvort sem frv. verður samþ. eða fellt, svo að það komi ljóst og greinilega fram, hvort á að hafa þá aðferð í þessu efni, sem höfð hefir verið nú undanfarið, eða hvort mönnum er alvara með að breyta þar til. Það er sérstaklega nauðsynlegt að flýta afgreiðslu þessa máls, vegna þess að búnaðarþingið, sem stendur nú yfir, verður líklega fyrr úti heldur en Alþ. Ef frv. verður samþ. áður en búnaðarþinginu er lokið, þá fær búnaðarþing það, er nú situr, tækifæri til þess að kjósa alla mennina í stj. Búnaðarfélags Íslands, og getur þar með ráðið því, hvernig þessum málum verði hagað á því fjárhagstímabili, sem það afgreiðir áætlun fyrir. Af þessari orsök vil ég enda mína ræðu með því að skora á hæstv. forseta og aðra, sem hlut eiga að máli, að sjá um, að afgreiðslu þessa máls verði sem allra mest flýtt hér á Alþ.