21.03.1935
Neðri deild: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

10. mál, jarðræktarlög

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Um þetta frv., sem hér liggur fyrir, skal ég ekki vera langorður að svo komnu. En ég vil aðeins geta þess, að nú nýlega hefi ég átt tal við þá menn, sem til þess voru kjörnir af búnaðarþinginu að ræða við mig um fyrirkomulag Búnaðarfélags Íslands, og þau viðtöl halda áfram með því fyrirkomulagi, sem við höfum komið okkur saman um.

Ég býst ekki við að geti orðið við þeirri beiðni, sem fyrir liggur frá þeim hv. þm., sem talað hafa í þessu máli nú, að flýta sérstaklega afgreiðslu þessa frv., einmitt með tilliti til þess, að það mál, sem frv. er um, er þannig til umræðu og yfirvegunar.

Sennilega eru flestir þeirrar skoðunar nú, að varla geti komið til mála annað en að breyta á einhvern hátt fyrirkomulaginu á stjórn Búnaðarfél. Ísl., þannig að dregin verði ákveðin lína til verkaskiptingar um stjórn á þeim málum, sem Búnaðarfél. Ísl. sjálft ráði yfir annarsvegar og þar sem það kysi sína stjórn, og þeim málum hinsvegar, sem ríkisstj. eða hlutaðeigandi ráðh. ráði yfir. Þetta er yfirleitt orðin næsta almenn skoðun, að nauðsynlegt sé að draga þessar takmarkalínur. En áður en þessar takmarkalínur eru dregnar er raunverulega ekki hægt og ekki rétt að afgr. frv. þetta, eins og það er nú. Þetta vildi ég láta koma fram þegar við 1. umr. þessa máls, vegna þess að það er eðlilegt, að það hafi áhrif á afgreiðslu þess og gang þess yfirleitt hér á háttv. Alþingi.