21.03.1935
Neðri deild: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

10. mál, jarðræktarlög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það ætti að vera óþarfi að hafa langar umr. um þetta mál, því að ég held að það hafi verið gefnar yfirlýsingar um það af Framsfl., Sjálfstfl. og Bændafl., að það væri sjálfsagt að vinna að því, að Búnaðarfélag Íslands fengi sjálft að ráða hvernig þess eigin stj. væri skipuð. Og þegar það er nú upplýst, sem alltaf hefir verið vitað, að búnaðarþingið óskar eindregið eftir að fá þennan rétt viðurkenndan, þá ætti Alþingi ekki að láta standa á sér að ganga inn á þessa sjálfsögðu leið, að skapa Búnaðarfélaginu þessa aðstöðu. Og þar sem þetta mál hefir verið borið fram á fjölmörgum undanförnum þingum, þó að það hafi ekki enn fengið afgreiðslu, þá vil ég vænta þess, að landbn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, flýti nú afgreiðslu þess. Ég þykist mega vænta þess, að hv. form. landbn., sem er einu af stjórnendum Búnaðarfél., beiti sér fyrir því, að ekki verði legið á þessu máli eins og gert var á óforsvaranlegan hátt á síðasta þingi í landbn. Ed. (BÁ: Ég átti ekki sæti í þeirri n.). Nei, og það hefði ekki heldur svo til gengið, ef hann hefði átt sæti þar. Vona ég, að hann sýni nú, að landbn. Nd. er öðruvísi skipuð en landbn. Ed. á síðasta þingi. Það er ekki vansalaust, að málið sé látið liggja óhreyft í n. svo að segja allan þingtímann, eftir að flokkarnir hafa gefið yfirlýsingu um, að þeir vilji vinna að því, að slík skipun Búnaðarfél. verði lögfest. Slíkur loddaraleikur á ekki að eiga sér stað. Ég vona því, að nú verði séð svo til, að málið komist í gegnum þingið.