28.02.1935
Neðri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

10. mál, jarðræktarlög

Emil Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og skal ég með fáum orðum gera grein fyrir, í hverju hann er fólginn.

Ég er samþ. aðalefni frv., því, að bændur sjálfir fái yfirráð yfir stjórn Búnaðarfélagsins. En mér finnst samt nokkuð við það að athuga, hvernig málið er fram komið, og í því liggur að nokkru leyti minn fyrirvari og að nokkru leyti í öðru atriði.

Uppbygging búnaðarsamtakanna er á þann veg. eftir því sem mér er sagt, að þótt þetta frv. komist í gegn, er alls ekki tryggt, að meiri hl. bænda fái full yfirráð um skipun búnaðarþingsins, vegna þess kosningafyrirkomulags, sem er til búnaðarþings. Ég skal ekki fara frekar út í það. Það eru aðrir hér í hv. d., sem eru færari til þess að skýra þetta mál, en ég veit, að þetta er rétt.

Í öðru lagi er í fjárlögum yfirstandandi árs í sambandi við fjárveitinguna til Búnaðarfél. svo hljóðandi aths., er ég nú skal lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er falið að undirbúa till. um framtíðarskipulag Búnaðarfélagsins og leggja þær fyrir næsta þing“.

Ég hefði kosið, að hæstv. landbúnaðarráðh. væri hér viðstaddur til þess að gera grein fyrir, hvernig, hann hugar sér að gera till. í þessu máli, en mér finnst óeðlilegt, að einstakir þm. taki sig fram um það verk, sem hæstv. ríkisstj. hefir verið falið. Mér finnst eðlilegt, að hæstv. landbúnaðarráðh. hafi ekki getað skilað áliti sínu um þetta ennþá, þar sem svo stutt er áliðið þings, og í öðru lagi er vitað, að hann hefir haft öðrum störfum að gegna, m. a. erlendi, nú um nokkurn tíma. Mér hefði þess vegna fundizt eðlilegra, að hæstv. landbúnaðarráðh. yrði gefinn kostur á að skila till. sínum um þetta mál áður en hv. þd. fer að slá nokkru föstu um það. Ég er sem sagt í „principinu“ með málinu, en felli mig ekki við þessa afgreiðslu þingsins á því, að ekki sé beðið eftir, að landbráðh. komi með sínar till., sem hæstv. Alþingi hefir beinlínis falið honum að gera. Mér er sagt, að hæstv. ráðh. hafi staðið í samningum við yfirstandandi búnaðarþing um þetta atriði mg önnur, sem málið snerta, og hefði mér því fundizt réttast að fresta málinu þangað til hann hefir komið með sínar till. Mitt atkv. getur því farið eftir því, hvað hæstv. ráðh. segir í þessu máli, en eins og ég sagði áðan, er ég samþykkur því í „principinu“.