28.02.1935
Neðri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

10. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég gerði ráð fyrir, að hv. 2. þm. N.-M. mundi gera grein fyrir sínum fyrirvara, en úr því að það er ekki, skal ég þegar segja örfá orð um þann ágreining, sem hv. síðasti ræðumaður hafði fram að færa í sambandi við þetta mál.

Þá er fyrst að víkja að því, hvort það sé óeðlilegt, að einstakir þm. beri fram þetta mál, af því að Alþingi hafi falið ríkisstj. að gera till. til breytinga í þessu efni. Þá er því fyrst til að svara, að ef ég man rétt, þá mun þessi till. um að fela þetta stj. hafa verið að nokkru leyti tekin aftur á síðasta þingi. (PZ.: Hún er í fjárl.). Skilyrðin eru aðallega þau, að ríkisstj. samþ. skipun búnaðarmalastjóra og fjárhagsáætlun búnaðarþings.

Í öðru lagi er það um þetta að segja, að ég lít svo á, að þótt það sé út af fyrir sig gott að vera í samráði við ráðandi ríkisstj. um þessi mál, þá er það að sjálfsögðu fyrst og fremst búnaðarþingið og þeir fulltrúar, sem bændur sjálfir kjósa, sem eiga að hafa vald á því, hvert sé skipulag þessara mála. Að öðru leyti er um þetta mál að segja frá mínu sjónarmiði, að ég hefi enga vissu fyrir því, að hæstv. ríkisstj. leggi fram neina till. til breyt. í þessu efni fyrir þetta þing. en af því að hér er um alvarlegt ágreiningsmál að ræða, sem hefir beðið lengi og nauðsyn bar til að fengi lausn, þá fannst mér ekki ástæða til að bíða eftir því, að fram kæmu frekari till. til breyt. í þessu efni.

Þá vil ég víkja að einu atriði, sem hv. síðasti ræðumaður drap á, sem mér skildist vera aðalatriðið fyrir hans fyrirvara, sem sé því, að kosningatilhögun búnaðarsambandanna og til búnaðarþings sé ekki svo heilsteypt, að viðunandi sé, að hún haldist svo óbreytt. Út frá mínu sjónarmiði er það að segja, að ég tel annmarka á því skipulagi að því leyti, að það standa ekki jafnmargir einstaklingar meðal bænda á bak við hvern búnaðarþingsfulltrúa. Það getur líka verið athugavert, að þar sem svo stendur á, að einfaldur meiri hl. ræður á fundum búnaðarsambandanna, getur hann jafnvel fengið alla fulltrúana kosna þar, sem fleiri á að kjósa. Þess vegna er ég að því leyti samþ. síðasta ræðumanni, um að það sé æskilegt að breyta þessu þannig, að jafnréttið njóti sín frekar en nú er. En það breytir engu frá mínu sjónarmiði um það, að þrátt fyrir þetta sé sjálfsagt að afgr. þetta frv., sem hér liggur fyrir, og orsakirnar til þess eru þær, eins og hv. síðasti ræðumaður játaði, að það er ekki hægt að setja þetta hér á Alþingi í fullkomið samband hvað við annað, vegna þess, að það á að vera verk búnaðarsambandanna, Búnaðarfél. Íslands og búnaðarþings að gera þær breyt. í þessu efni, sem æskilegar eru. Og ég ber það traust til þessara aðilja, að það sé óhætt fyrir Alþingi að gera ráð fyrir því, að þær breyt., sem til umbóta eru á þessu skipulagi, komist á í náinni framtíð og þurfi ekki sérstaklega að gera þær að skilyrði fyrir framgangi þessa frv. Enda er frá mínu sjónarmiði óeðlilegt, að Alþingi gangi þannig inn á einkaverksvið þessa félagsskapar með því að gera það að beinu skilyrði fyrir því, að þetta frv. verði samþ.

Fleira hefi ég svo ekki að segja að sinni út af ræðu hv. þm. Hafnf.