28.02.1935
Neðri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

10. mál, jarðræktarlög

Páll Zóphóníasson:

Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara vegna þess, að mér var kunnugt um, að það stóðu yfir samningar milli búnaðarþingsins, sem situr, og ríkisstj. um lausn þeirra mála, sem ætlazt var til, að yrðu leyst með því skilyrði, sem sett var í fjárl. á síðasta þingi. Nú er þeim málum komið svo, að það er fyrirsjáanlegt, að þau leysast á þann hátt, sem allir una sæmilega vel. Þess vegna fell ég frá fyrirvara mínum og mun fylgja frv. gegnum þingið og vona, að gata þess verði greidd eins og hægt er, svo að þeim deilumálum, sem utan um Búnaðarfélag Íslands hafa staðið og ætlazt var til, að stj. leysti, verði sem fyrst lokið en grundvöllur til þess að svo verði, er að þessi lög verði samþ.