02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

10. mál, jarðræktarlög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það var dálítið einkennilegt að heyra það hjá hæstv. ráðh., að hann vill láta viss skilyrði vera fyrir samþykkt allra réttlætismála, sem tilheyra Búnaðarfél. eða landbúnaðinum. Ég veit ekki, hvernig á að skilja þá afstöðu hæstv. stj. eða stjórnarflokki gagnvart þessu máli, ef skilyrði þurfa að fylgja svo sjálfsögðu atriði og því, að Búnaðarfél. ráði sjálft öllu um stjórn sína. Ég veit ekki betur en að framsóknarmenn hafi lýst yfir því, að þetta væri sjálfsagt og því þyrfti að koma í framkvæmd, og það sem allra fyrst. Ef til vill liggur hér eitthvað annað og meira á bak við, eins og virðist vera bak við öll mál, sem landbúnaðinum tilheyra. Í því sambandi vil ég benda á það, að fyrir viku síðan tilkynnti hæstv. stj., að á ferðinni væri frv., sem jafnvel væri komið í prentun, frá ríkisstj. um bætt vaxtakjör fasteignalána. Ég hefi ekki séð bóla á því síðan. Ef til vill er þessi silaháttur ríkisstj. í öllum málum í sambandi við eitthvað, sem þinginu er hulið, en þá á hæstv. stj. að leysa frá skjóðunni og segja, hvað inni fyrir býr. Hæstv. ríkisstj. á ekki að vera að leika þennan skollaleik hér og þykjast vera málunum fylgjandi, ef þetta eða hitt verði gert, sem hún geti sætt sig við. Það er eins og það þurfi að kaupa hæstv. stj. til þess að verða meðmælt hverju einstöku atriði, sem þarf til viðreisnar landbúnaðinum hér á hv. þingi. Það getur orðið erfitt fyrir bændastéttina gegnum fulltrúa sína í hæstv. stj. að vinna að málum sínum ef hún þarf að kaupa hana til hvers atriðis, sem þarf til hagsmuna landbúnaðarins.