02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

10. mál, jarðræktarlög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég held, að hæstv. ráðh. ætti nú að vera búinn að átta sig á því, eftir þeim óskum, sem um það hafa borizt víðsvegar að af landinu, að það frv., sem við Bændafl.menn höfum flutt um vaxtalækkunina, á að ná samþykki þingsins. A. m. k. ætti hæstv. ráðh. að vera það vorkunnarlaust, eftir allt það, sem fram fór um þetta mál á síðasta þingi, að vera nú búinn að átta sig á því, hvað gera þarf landbúnaðinum til viðreisnar. Og þó að hæstv. ráðh. segi enn, að hægt sé að ljúka vaxtamálinu á þessu þingi, þá hefir það loforð verið svikið einu sinni áður á síðasta þingi. Meiri hl. hv. landbn. gaf þá hátíðlegt loforð um, að það frv., sem hann þá flutti, skyldi komast í gegnum þingið, eftir að meiri hl. n. var búinn að liggja á frv. okkar bændafl.manna um vaxtalækkunina nálega allt þingið. Hv. meiri hl. landb. fullyrti þetta þá, en það reyndist brigðmælgi. Það getur vitanlega farið svo enn, þó að hæstv. ráðh. segi annað, og þó hann haldi því fram. að stj. hafi enn komið fram öllum sínum málum. Það getur verið, að áhugaleysi ráðh. í þessu máli komi honum óþægilega á bak síðar, þannig að þó hann vildi koma þessu máli fram í einhverri mynd, þá bresti hann flokksfylgi til þess. Það er hugsanlegt, að honum bregðist þá bogalistin, þannig að sósíalistarnir hlaupi útundan sér, eins og á síðasta þingi. Frv. meiri hl. landbn. á síðasta þingi komst aðeins í gegnum þessa d., Ed. gat ekki fallizt á það í því formi, sem það var afgr. hér. Og svo gæti enn farið. Það er líka hugsanlegt, að það kunni að taka nokkurn tíma, ef stj. þætti nauðsynlegt að senda þetta frv. til athugunar t. d. upp að Hvanneyri eða eitthvað annað!