14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

Kæra um kjörgengi

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er aðeins af því að hæstv. forseti meinaði mér að taka fram í ræðu hans áðan, að ég kveð mér hljóðs. - Hann bar fram þá spurningu til mín beinlínis, hvernig Sjálfstfl. hefði brugðizt við kröfu Alþfl. um að Sigurður Jónasson viki sæti úr bæjarstj. þegar hann fór úr Alþfl. Það kom aldrei til kasta Sjálfstfl. af þeirri ástæðu, að Sigurður Jónasson varð við kröfu Alþfl. og lagði niður umboð á þann hátt, að hann mun ekki hafa mætt á bæjarstjórnarfundum eftir að hann sagði sig úr flokknum, a. m. k. ekki neina ef vera kynni að hann hafi mitt á næsta fundi á eftir.

Þannig bætir þetta í raun og veru við það, sem ég vildi hafa sagt áðan með því að minnast á þetta dæmi, að það var ekki aðeins það að Alþfl. gerði þá kröfu, að þessi fulltrúi hans legði niður umboð vegna þess að hann sagði sig úr flokknum, heldur fékk flokkurinn kröfunni að þessu leyti framgengt.