13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Frsm. (Sigfús Jónsson):

Þetta frv. er flutt af meiri hl. fjhn. Eins og kunnugt er, voru á síðasta þingi samþ. fern lög um sölu íslenzkra afurða. Í þeim er ákveðið að skipa nefndir, er sjái um framkvæmd þeirra, og er þar tekið fram, að ríkissjóður beri kostnaðinn að meira eða minna leyti. Í þessu frv. er farið fram á, að kostnaðurinn af n. þessum sé ekki látinn lenda á ríkissjóði, heldur á sölu afurðanna sjálfra. Nær þetta yfir fiskimálanefnd, síldarútvegsnefnd, kjötverðlagsnefnd og mjólkursölunefnd. Hvað þessi kostnaður er mikill, get ég ekki sagt um, en ég býst við, að hann sé um 100 þús. kr. á ári.

Eins og útlitið er nú, er ekki hægt að segja, að ríkissjóður geti borið þennan kostnað, þó menn væru bjartsýnir, þegar lög þessi voru samþ., og gert væri þá ráð fyrir, að ríkissjóður bæri útgjöld þessi að nokkrum hluta. Nú má gera ráð fyrir, að markaður þrengist, og afleiðingin er sú, að takmarka verður innflutning á erlendum vörum, sem hefir gefið ríkissjóði miklar tekjur. Virðist og eðlilegt, að afurðirnar eða innlendu vörurnar beri sjálfar þann kostnað, er leiðir af skipulagningu sölu þeirra. En þegar svo fer, að vörurnar seljast óeðlilega lágu verði, þá er eðlilegt, að ríkissjóður hlaupi undir bagga og greiði einhvern hluta andvirðisins. Enda er nú svo, að borin mun verða fram till. til þál. um, að ríkisstj. sé heimilað að greiða uppbót á kjöti því, sem selt var út á s. l. hausti með óvenjulega lágu verði. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, en vil mega vænta þess, að hv. þd. gefi máli þessu skjóta afgreiðslu.