14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

Kæra um kjörgengi

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki blandað mér inn í þessar deilur, þó að talsvert tilefni hafi gefizt til þess, þar sem bæði hv. 6. landsk. og hv. 9. landsk. hafa látið þau orð falla, að við uppbótarþm,. Sjálfstfl. hlytum sóma okkar vegna að greiða atkv. með dagskrártill. meiri hl. kjörbréfan. Og þeir hafa jafnvel látið þau orð falla, að það bæri vott um þrælslund, ef við ekki gerðum það. Áður en ég vík að þessum ummælum, vil ég minnast á það fyrst, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að 28. gr. stjskr. væri að því er snertir kosningar og kjörgengi alveg tæmandi. Nú vil ég strax benda á það, að það hefir komið fram hjá hæstv forseta Sþ. og fleirum, að þeir teldu, að 133. gr. kosningalaganna bryti ekki í bág við stjskr., en í þeirri grein er því slegið föstu, að það sé hægt að svipta mann kjörbréfi, þó að hann hafi á löglegan hátt fengið það. Það, sem hæstv. forseti Sþ. mundi segja þessu til andsvara, væri helzt, að 133. gr. kosningalaganna ætti aðeins við á meðan þing væri að skipa sig. En þetta er ekki rétt, því að þótt gert sé ráð fyrir því, að 133. gr. sé beitt í slíkum tilfellum, þá er ekki því að neita, að þessi sami uppbótarþm., sem síðar kynni að verða sviptur kjörbréfi sínu, hefir alveg á sama hátt og þessir 11 uppbótarþm., sem hafa fengið kjörbréf, verið samþ. löglega inn á þingið, þótt hann síðar yrði sviptur kjörbréfi. Það skiptir engu máli, þó að í þessu tilfelli sé vísað til þess, að landskjörsstjórn eigi úrskurðarvaldið. Ég vil líka benda á eitt, sem sýnir, að þessa grein stjskr. á ekki að skoða sem tæmandi. Það er það, að til þess að verða uppbótarþm. þarf þingmannsefnið að hafa staðið á landslista, en getur hinsvegar með yfirlýsingu sinni fallið frá þeim rétti, eins og f. d. Vilmundur Jónsson landlæknir. M. ö. o., jafnvel þótt Vilmundur Jónsson uppfyllti skilyrði 28. gr. stjskr., var þó eitt kjörgengisskilyrði, sem vantaði til þess að hann gæti orðið uppbótarþm. Ef því væri slegið föstu, að þessi kjörgengisskilyrði 28. gr. stjskr. væru undir öllum kringumstæðum tæmandi, hvers vegna væri þá ekki Vilmundur Jónsson uppbótarþm.? Vegna þess að það er eitt kjörgengisskilyrði í viðbót, sem þarf að uppfylla, þó að um það megi deila, á hvern hátt eigi að orða það, hver sé réttur landkjörinna þm. og kjördæmakjörinna þm. Hvort sem það er rétt, að flokkurinn eigi uppbótarsætin eða ekki, þá verður því ekki neitað, að 26. gr. stjskr. gerir á þessum tveim tegundum þm. nokkurn mun. Ég vil benda á, að 26. gr. segir um uppbótarsætin, með leyfi hæstv. forseta: „Að öðru leyti fer um skipun jöfnunarþingsæta eftir kosningalögum.“ M. ö. o. að því er þessa menn snertir er lagaheimildin miklu rýmri. - 28. gr. heimilar ekki kosningal. að gera neina breyt. á þessu kjörgengisskilyrði, en það gerir 26. gr. að því er snertir uppbótarþm. Það má líka benda á, að þótt 133. gr. sé miðuð við skipun þingsins í upphafi, fellur samt niður umboð þm., sem löglega hefir verið samþ. af landskjörstjórn og síðan af þingi. En af hverju fellur það niður? Af því að almennar kosningar hafa sent, að hlutfallið, sem á að vera milli þingmannatölu flokks og kjósendanna, sem standa á bak við hann, hefir raskazt. Þessi röskun er sönnuð með kosningu, sem hefir farið fram. Ef hinsvegar hægt er að sanna, að slík röskun fari fram á þann veg - ekki vegna þess, að kjósendatala aukist eða minnki, heldur vegna þess að tala þm. flokksins minnkar með því, að þm. segir sig úr flokknum eða með því að uppkosning hafi farið fram, þá skal samkv. anda og orðalagi 133. gr. kosningal. bæta flokknum upp þann missi, er hann hefir orðið fyrir. Ég verð því að telja, að með þessu sé sýnt fram á, að það hefir ekki verið tilætlun stjórnarskrárgjafans, að upptalning 28. og 29. gr. stjskr. væri tæmandi. Það sýnir bæði 29. gr. stjskr. og 133. gr. kosningal. - Hvað sem þessu líður og hvort sem hægt er að deila um þetta eins og svo margt annað, verður ekki um það deilt, að það hefir verið tilgangur stjskrárgjafans, að þetta skyldi vera þannig. - Er því skylt að verða við kröfu Bændafl. um brottvikningu Magnúsar Torfasonar, að ég ekki minnist á þá siðferðislegu skyldu, sem hvílir á þessum hv. þm. að segja af sér þingmennsku. Á það hefir verið bent og hv. 6. landsk. orðið að játa, vegna upplýsinga, sem hv. þm. V.-Sk. gaf um það, hvað gerðist innan kjörbr.n., að það væri sitt álit, að Magnús ætti að víkja af þingi af siðferðislegum ástæðum. Hann segir hinsvegar, að það eigi að vera svo mikil „disciplin“ innan flokksins, að flokkurinn geti sjálfur látið menn leggja niður umboð sin. Þetta kveður við nokkuð annan tón en í gær, þar sem hann þá sagði, að það væri skylda allra landsk. þm. að greiða atkv. með dagskrártill. meiri hl. kjörbrn., því að annars væru þeir raunverulega að gera sjálfa sig að þrælum. Mér finnst það koma úr hörðustu átt, að jafnaðarmenn skuli tala þannig um þessa hluti, þar sem þeir hafa gert kröfu um það, að flokksmaður þeirra - Sigurður Jónasson - legði niður starf sitt í niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur, þegar hann sagði sig úr Alþfl. Sjálfur var þessi hv. þm. áðan að segja, að hann teldi fyrir sitt leyti siðferðislega skyldu þm., sem þannig stæði á um, að leggja niður umboð sitt. En hvernig er með þá menn, sem vitað er um, að hafa verið þessi tvö þing algerðir þrælar jafnaðarmanna - framsóknarmennina -, þá menn, sem aldrei hafa gert annað en að uppfylla kröfur jafnaðarmanna? Hvar sem þingmálafundir voru, stóð hver jafnaðarmaðurinn upp á fætur öðrum og skýrði frá því, hvaða atriði hefðu verið í 4 ára áætluninni og að þau hefðu öll komizt í framkvæmd. Og þeir drógu engar dulur á, að framsóknarmenn gerðu eins og jafnaðarmenn krefðust. Í Framsfl. ræður meiri hluti skilyrðislaust. Þeir þm. verða að víkja úr flokknum - og þá vitanlega af Alþ. -, sem ekki fylgja samþykktum meiri hlutans. Ég verð að telja, að þó að ég greiði atkv. bæði með till. hv. þm. G.-K., en á móti dagskrártill. meiri hl. kjörbrn., þá sé það í samræmi við þær skoðanir, sem flestir frjálslyndir menn hafa. Og hv. 6. landsk. verður hér á Alþ. að rísa upp og koma með fleiri rök, ef hann ætlar að sanna, að við sjálfstæðismenn sýnum nokkra þrælslund með því að styðja þá kröfu, sem hv. 6. landsk. meðgekk sjálfur að væri rett, að Magnús Torfason víki af þingi.