13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Pétur Ottesen:

Það má í sjálfu sér segja, að það er ekki óeðlilegt, þó að styrktar séu þær atvinnu- eða framleiðslugreinar, sem hér er um að ræða, með því að gera ráðstafanir til hjálpar um að greiða fyrir sölu afurðanna, og þarf því ekki að teljast ósanngjarnt, þó framleiðslan sjálf beri þann kostnað, sem af því leiðir. En það er þó því aðeins eðlilegt og sjálfsagt eða sanngjarnt, að nefndir þar, sem ráða yfir þessum málum. séu skipaðar framleiðendum eða þeim mönnum, er þeir fela þetta starf. Það hlýtur því að koma á eftir samþykkt slíks frv. sem þessa, að bændur fái í sínar hendur sölu landbúnaðarafurðanna, útvegsmenn sölu sjávarafurða o. s. frv. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram við þessa umr., að ég tel ekki réttlæti í því að samþ. þetta frv. eða velta kostnaðinum yfir á framleiðsluna, nema því aðeins, að framleiðendur fái jafnframt í sínar hendur öll yfirráð afurðasölunnar, þar með fullkominn og óskoraðan ákvörðunarrétt um það, hvað sé lagt mikið í kostnað við þetta, þar sem þeir eiga að bera kostnaðinn að öllu leyti. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram í sambandi við framkomu þessa frv. Ég fyrir mitt leyti mun greiða atkv. með frv. með þessum sjálfsagða fyrirvara.