13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég get ekki látið hjá líða að minnast nokkrum orðum á sumt af því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, og raunar hv. 7. landsk. líka. Það bar æðimikið á því, að þeir töluðu um bitlinga og bitlingamenn. Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að bændur og aðrir framleiðendur hefðu ef til vili verið með því, að hið opinbera hefði einhver afskipti af afurðasölu þeirra, en þó vitanlega aldrei meint það, að framleiðendur ættu að bera kostnað við einhverja bitlingamenn, sem hann kallaði svo. Þetta um bitlingamenn er nú slagorð, sem mjög er veifað. En ég spyr hv. þm.: Heldur hann, að þessir bændur og aðrir framleiðendur þyrftu ekki að fá einhverja til þess að vinna þetta starf? Og heldur hann, að bændum sé það ekki ljóst, að einhverjir þurfa að vinna að framkvæmdastörfum? Það má kalla þá bitlingamenn eða hvaða illum nöfnum, sem mönnum sýnist, en það er eftir að sanna — já og færa líkur fyrir því að þeirra starf sé ekki fullt gjald fyrir það, sem þeir fá í aðra hönd. Það bar ekki á því í byrjun, að þeir, sem nú tala um bitlinga, ætluðust þá til, að störf þessi yrðu ekki unnin af neinum mannlegum vinnukrafti. Ég man ekki betur en hv. 7. landsk. væri með þessari löggjöf, a. m. k. um kjötið og mjólkina, og á hann þá vitanlega sinn þátt í því að koma upp þessum bitlingaher, sem um er talað.

Það er löngum létt verk að koma af stað tortryggni, og það er reynt að halda fram, að þessir menn séu of margir og of hátt launaðir. En það sæmir ekki að ryðja hér fram órökstuddum ummælum, heldur verður að fylgja grg., sem sýnir, að þau séu réttmæt.

Hv. 5. þm. Reykv. spurði um það, hvað meint væri í grg. og með orðum, sem ég lét falla áðan, að komið gæti til mála að létta undir sölukostnaði hjá einhverjum framleiðslugreinum. Það er svo að skilja, að ef sölukostnaður reynist svo mikill hlutfallslega, miðað við verðmæti einhverrar vöru, að hann hafi veruleg áhrif á vöruna, finnst mér slíkt geta komið til mála. Ég vil benda hv. þm. á eitt dæmi, sem raunverulega liggur fyrir. Það mun fást lélegt verð fyrir nokkuð af kjötinu, og er varla hægt að gera það viðunandi með öðru móti en að láta verðjöfnunarsjóð létta undir. Það er í öllum slíkum tilfellum, að ég á við, að þetta geti komið til mála.

Hv. þm. spurði, hvort ég gerði ráð fyrir, að það yrði gerð grein fyrir kostnaði við störf fiskimálanefndar, ef henni er greitt samkv. 1. gr. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir, að úr hvaða sjóði sem greitt er, verði gerð grein fyrir kostnaði við þá n., sem um er að ræða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja fleira að sinni, enda gefst síðar tækifæri til að upplýsa eitthvað, ef óskað er.