13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Jón Sigurðsson:

Hæstv. fjmrh. sagði, að ég væri samsekur um stofnun þessara bitlinga, sem hér væri um að ræða. Það er svo hvert mál sem það er virt. Þegar þessi löggjöf var sett, var ég eins og margir fleiri óánægðir með ýms atkvæði þessara l., þó að við teldum hinsvegar önnur ákvæði málsins svo mikils virði, að við vildum þess vegna ekki greiða atkv. á móti málinu.

Ég hefi alla tíð verið á móti því, hvernig þessar n. voru skipaðar, ég tel það fullkomna fjarstæðu. hvernig t. d. n. voru skipaðar, er fjalla um afurðasölu bænda. Hefðu bændur sjálfir átt að skipa í þessar n., þá hefði farið á annan veg. Það er ekki líklegt, eða treystir nokkur sér til að halda því fram, að ef bændur hefðu átt að velja sjálfir trúnaðarmenn sína í þessa n., hefðu þeir valið til þess menn, sem yfirlýst og opinberlega telja það hlutverk sitt og færa niður verðið á afurðum bænda eins og frekast var hægt?

Það er að vísu rétt, að það liggur ekki enn fyrir skýrsla um þennan kostnað, svo að hæstv. ráðh. getur vitanlega skákað í því skjóli, að við höfum engar tölur að byggja á. Á hinn boginn hefir maður nokkuð ábyggilegar fregnir um það, hversu hátt kaup þessir menn hafi fengið, en annars má þetta gjarnan bíða síns tíma. Það kemur þá í ljós, hvort við höfum ekki reynzt sannspáir um það, að allmiklu fé hafi þar verið eytt algerlega að óþörfu.