14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Kæra um kjörgengi

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki lengja mikið umr., en það eru aðeins tvö atriði, sem ég vildi koma að. Fyrra atriðið er það, að því er haldið fram, að eftir reglum Framsfl. eigi miðstjórn flokksins að ráða afstöðu þingmanna, og þeir þingmenn, sem brjóti í bága við flokkssamþykkt, eigi að víkja af þingi. Út af þessu vil ég taka það fram, að þetta er algerlega rangt, eins og sést bezt á því, að á haustþinginu 1933, þegar við rákum þá Jón í Stóradal og Hannes Jónsson úr flokknum af því að þeir vildu ekki hlíta flokkssamþykkt, fórum við aldrei fram á það, að þeir vikju af þingi. Þeir gátu farið eftir sannfæringu sinni, en við vildum ekki láta þá koma fram lengur á ábyrgð Framsfl. - 130 er því reginmunur á því, að hafa flokksskipulag, sem gerir ráð fyrir því, að þingmenn hagi sér eftir því, sem flokkurinn ákveður, og hinu, að menn geti ekki fylgt sannfæringu sinni. Fyrir þá menn, sem hafa sannfæringu í andstöðu við flokksviljann, er opin sú leið, að segja sig úr flokknum.

Um hitt atriðið, sem líka er mjög rætt, hvort það sé siðferðisleg skylda hv. 2. landsk. (Magnúsar Torfasonar) að segja af sér þingmennsku, vil ég segja þetta:

Það má vitanlega færa margt fram til stuðnings því, að uppbótarþingmenn, sem ekki fylgja lengur flokki sínum, þ. e. a. s. flokki, sem byggður er upp á venjulegum grundvelli, eigi ekki að sitja á þingi áfram. En hafa menn athugað það, að hér stendur alveg sérstaklega á, nefnilega þannig, að sá flokkur, sem hefir kosið Magnús Torfason á þing, gekk til kosninganna með þeirri stefnu, að innan flokksins skyldi ekkert ráða annað en sannfæring hvers eins. Engar flokkssamþykktir áttu að binda menn. Hafa menn athugað, að eftir eigin sögn stofnenda Bændafl. fóru þeir úr Framsfl. til þess að þurfa ekki að beygja sig fyrir flokkssamþykkt? Magnús Torfason var kosinn á þing fyrir Bændafl. með það fyrir augum, að hann væri ekki bundinn við neitt, sem héti flokkssamþykkt. þess vegna held ég því fram, að málið liggi nú þannig fyrir, að ef hv. 2. landsk. beygði sig fyrir ofríki hv. þm. V.-Húnv. og hv. 10. landsk. og færi af þingi að þeirra vilja, brygðist hann trausti kjósenda sinna, því að hann var ekki kosinn á þing til að láta beygjast af flokksvaldi, heldur til að taka afstöðu eftir sannfæringu sinni eingöngu. Því getur það ekki verið siðferðisskylda hans að fara af þingi nú, heldur þvert á móti skylda hans við kjósendur að sitja sem fastast, hvort sem Bændafl. eða þeim 2/3 hlutum hans. hv. 10. landsk. og hv. þm. V.-Húnv., þykir ljúft eða leitt.

Annars vil ég benda á það, að mér finnst næstum grátbroslegt, að Bændafl. skuli vera að halda því fram hér á Alþingi, að rétt sé, að einn af flokksmönnunum sé rekinn út úr þinginu fyrir það að halda fast við reglu, sem flokkurinn hafði fyrir kosningarnar lofað kjósendunum að lifa eftir. Með því hefir flokkurinn fullkomnað og opinberað svik á öllum þeim loforðum, sem hann gaf kjósendunum fyrir kosningar.