13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Pétur Ottesen:

Ég vil nota tækifærið til þess að láta í ljós ánægju mína yfir því, að stjórnarflokkarnir skuli ekki vera alveg mállausir, þótt mjólkurmálið sé rétt. En það brá svo einkennilega við um þessa málóðu menn, þegar það frv. var til umr. á dögunum, að þeir voru eins og klumsa og horfðu í gaupnir sér. Ekki einu sinni þegar til atkvgr. kom þorðu þeir að greiða atkv. gegn frv., og hugðust með því geta tafið framgangi málsins, en þeim tókst það ekki og frv. fór til n. og fær þar væntanlega góða afgreiðslu. En út af því, sem hæstv. fjmrh. var áðan að segja, að það hlyti að vera eðlilegt, að forstjóri mjólkursölunnar, með því að afla sér óvildar neytenda með framkvæmd laganna, hlyti hann að hafa með því unnið sér traust bænda. (BÁ: Það var ekki forstjórinn). Jæja, form. mjólkursölunefndar þá. (Fjmrh.: Þetta er rangt eftir mér haft). Það er nú ekki í fyrsta sinn, sem þessir miklu menn afneita sínum orðum. Maður hefir nú dæmin um það úr heilagri ritningu um einn merkismann, sem afneitaði þrisvar. En það háskalegasta er, að það er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. um ánægjuna meðal bænda; óánægjan með framkvæmd mjólkursölunnar er ekki minni á þá hlið heldur en hjá neytendunum, og það er tæplega hægt að hugsa sér meiri ógæfu í málinu en þá, að báðir aðilar skuli vera jafnóánægðir og raun ber vitni um. Staðreyndirnar benda á þetta ótvírætt. Mjólkurbandalag Suðurlands hefir nú krafizt þess að fá yfirráð mjólkursölunnar í sínar hendur. Öll mjólkurbúin hér sunnanlands, að einn undanteknu, hafa gert þá kröfu. Og þetta eina bú er Flóabúið, þar sem formaðurinn er eins og kunnugt er hreint og beint samloka við formann mjólkursölunefndar. En það, sem tekur af skarið, er það, að fulltrúafundur Mjólkurfélags Reykjavíkur hefir heimtað yfirráðin með öllum atkv. gegn einu, og sá maður vildi aðeins sætta sig við, að það drægist til 1. maí. Og af hverju er þessi krafa sprottin? Af því að framkvæmd mjólkursölunnar hefir snúizt gegn hagsmunum bændanna í stað þess að verða þeim til blessunar. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. verði ekki búinn að missa málið þegar frv. okkar um breyt. á mjólkursölulögunum kemur til umr. næst, svo hægt verði að ræða málið við hann, og ég er sannfærður um, að hagsmunir bændanna í málinu verða ofan á að lokum.