14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

Kæra um kjörgengi

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Eins og ég hefi áður tekið fram, þá er ekki um það að ræða, hvernig ákvæði stjskr. og kosningal. fullnægi flokkunum, heldur um það, hvernig ákvæði stjskr. og kosningal. eru um þetta efni, sem hér ræðir um. Ég skal aðeins byrja á því að taka til meðferðar það, sem hæstv. fjmrh. sagði seinast, að samkv. stefnu Bændafl. væri skylda Magnúsar við kjósendur að sitja áfram á þingi. Nú er upplýst og viðurkennt af honum sjálfum, þótt hann hafi verið að neita því í öðru orðinu, að hann hafi verið búinn að slíta samvinnu við Bændafl. Ætli nokkur kjósandi Bændafl. ætlist til, að fulltrúar þeirra hætti að vinna saman? Ef Magnús hefði viljað halda áfram að vinna í samræmi við stefnu Bændafl. með öðrum flokksmönnum, þá átti hann að hafa rétt til að sitja áfram á þingi, en þar sem hann er hættur því, þá á hann að hverfa þaðan. Annars var hér í dag mikið haldið af löngum ræðum um ýms efni, sem lítið koma því máli við, sem hér um ræðir. En það verður nú samt ekki alveg framhjá því gengið, af því að fram kom þessi dæmalausa harmsaga hv. þm. S.-Þ. af starfi hans innan flokks síns. En þar sem hv. þm. segir sjálfur frá, þá er þessi harmsaga styttri en mátt hefði vera. Síðan ég tók sæti á Alþ. hefir flokkur hv. þm. haldið honum niðri, þegar mestu vitleysuköstin hafa komið í hann og hann hefir ætlað að fremja einhver glapræði. Það, sem hann fann okkur nokkrum framsóknarmönnum mest til foráttu, var m. a. róður, sem við hefðum átt að hefja við forsetakosninguna 1930. Það verður ekki hjá því komizt að minnast á þetta, úr því að hv. þm. S.-Þ. hefir óskað eftir umr. um það. Og þá vil ég benda á það, að strax á þinginu eftir kosningarnar 1927 var shlj. álit meiri hl. flokksins, að Ásgeir Ásgeirsson ætti að vera forseti Alþ. Nokkrir héldu því fram, að það væri e. t. v. réttara gagnvart Magnúsi Torfasyni, að láta Ásgeir Ásgeirsson ekki taka við forsetastörfum þá strax á því þingi, og því varð það, að meiri hluti flokksins eða stór hluti hans fellst á að kjósa Þorleif Jónsson forseta Sþ. með það fyrir augum, að Ásgeir Ásgeirsson yrði forseti Sþ. strax næsta ár, svo að það væri trygging fyrir því, að hann gegndi forsetastörfum 1930, og þá um leið tryggt, að það starf gæti farið forsvaranlega úr hendi. En það held ég, að allir hafi efazt um, nema hann sjálfur, sem veitti sér 3000 kr. til þess að fara utan til að læra mannasiði. Hann gæti þá munað það líka, að þeir, sem voru í stjórn fyrir Framsfl., voru ekkert á því að veita honum þetta fé, og hann mun alls ekki hafa fengið það hjá stj., heldur notað sitt eigið vald sem forseti Alþ. til þess að úrskurða sér þessa fjárhæð til utanfarar, hvort sem það hefir verið af því, að hann hafi verið búinn að fá vitneskju um, að Ásgeir Ásgeirsson ætti að verða forseti Sþ. 1930. Ég skal geta þess, að við prófkosningu, sem fram fór í Framsfl. um þetta, fékk Þorleifur 8 atkv. og Magnús 8 atkv., en tveir seðlar voru auðir, vegna þess að Þorleifur fékkst ekki til að greiða sjálfum sér atkv. en vildi ekki kjósa Magnús. Einn framsóknarþm., sem hvorugan þennan mann vildi, en vildi að Ásgeir Ásgeirsson yrði forseti þá þegar á því þingi, ætlaði að hliðra sér hjá að greiða atkv. með því að mæta ekki á fundi, en eftir ákveðinni skipun kemur hann og þannig flýtur Magnús Torfason inn í forsetastól 1928 með 9 atkv. framsóknarmanna gegn 8. (Forseti: Þingsköp mæla svo fyrir, að nefna skuli þm. eftir kjördæmum sínum). Já, að vísu, en uppbótarþm. eru ekki kenndir við nein sérstök kjördæmi. (Forseti: Hv. þm. hefir margoft nefnt þm. persónulegum nöfnum). Þetta skiptir nú ekki miklu máli, en það, sem máli skiptir hér, er, að Framsóknarfl. var ákveðinn í því, að Magnús Torfason skyldi ekki verða forseti Sþ. 1930. En það er dálítið einkennilegt, ef þetta á m. a. að vera fyrir undirróðursstarfsemi frá Jóni í Stóradal, sem ekki átti einu sinni sæti á Alþ. þetta ár. En ef endilega þarf að ráðast á Bændafl., þá er sjálfsagt að skamma okkur fyrir alla mögulega hluti, þótt við jafnvel eigum engan þátt í því, sem um er verið að ræða.

Þá get ég rétt vikið að öðru máli, sem hér hefir verið gert að umtalsefni í sambandi við það, hvað við, sem erum í Bændafl., hefðum verið óþjálir í samvinnu við flokkinn á sínum tíma í Íslandsbankamálinu. Ég er einn af þeim mönnum, sem harðastir voru í því máli innan Framsfl., svo að ég get ekki skilið, að þm. S.-Þ. geti borið mér á brýn, að ég hafi á nokkurn hátt vikið frá því, sem flokkurinn vildi vera láta a. m. k. í þingbyrjun. En sú breyt., sem varð á afstöðunni, var a. m. k., að einn framsóknarþm., sem nú á sæti á alþ. - hv. þm. Mýr. -, hafði ásamt tveim öðrum þm., þar á meðal Ásgeiri Ásgeirssyni, borið fram frv. um endurreisn Íslandsbanka. Það frv. hefði getað orðið að l., ef Framsóknarfl. hefði ekki vikið frá því, sem hann vildi í upphafi þings, og þá þegar var búið samstarfið í n., sem Framsfl. kaus í þessu máli. Það voru þeir núv. hv. þm. S.-Þ. og hv. 2. þm. Eyf., sem báru fram brtt. við frv. okkar Sveins Ólafssonar, svo að árás hv. þm. S.-Þ. á okkur Bændaflokksmenn í þessu máli ætti þá ekki síður að snúast gegn hv. 2. þm. Eyf., sem a. m. k. að forminu til var sá maður, sem gekk fram í broddi fylkingar um lausn á þessu máli. Vitanlega voru menn í Framsóknarfl. mismunandi ánægðir með þá lausn, sem fékkst, en töldu það þá skárstu lausnina, sem unnt var að fá. Núv. forseti Sþ. hefir lýst yfir því, að þetta væri bezta lausnin á málinu, og þó að sósíalistar hafi greitt atkv. á móti henni, þá hafi þetta verið tiltækilegast til þess að bjarga því, sem bjargað varð.

Þá talaði hv. þm. S.-Þ. mikið um það, að Magnús Torfason hefði verið hrakinn frá því að vera í stjskrn. og taldi, að við núv. Bændafl. menn hefðum unnið mikið að því, að svo varð. En sannleikurinn í þessu máli er samt sá, að allur Framsfl. var ákveðinn í því að setja þáv. þm. Str., Tryggva heitinn Þórhallsson, í n., og þá var aðeins um það að ræða, hvaða annar maður ætti að koma í n. með honum. Ég skal játa, að allmikið kapp var milli þeirra manna í flokknum, sem vildu að Jón í Stóradal yrði heldur í n. en Jónas Jónsson, núv. þm. S.-Þ., eins og ég ætti kannske að nefna hann. Hann var nú ekki alveg á því, að það væri heppilega valið í n., og því var það, að hann bauð nokkrum mönnum í kaffikvöld upp í Sambandshús til þess að ræða möguleikana til þess að losna við Jón úr þessari n. En hvort sem það hefir nú verið af því, að kaffið hafi verið svo dauft eða af öðrum ástæðum, þá varð ekki komizt að annari niðurstöðu en þeirri, að sá maður, sem fengi flest atkv., annar en Jón í Stóradal, skyldi vera kosinn í n. með Tryggva. Maður skyldi ætla, að Jónas hefði beitt öllu sínu þreki til að fá Magnús kosinn í n., en annaðhvort er, að Magnús er í svo litlu áliti, að hann hefir ekki fengið nema helminginn af þessum Jónasarhluta flokksins - en hann þurfti helming allra flokksatkv. til að komast í n. - eða þá að hv. þm. S.-Þ. hefir farið með rangt mál við Magnús Torfason og aðeins talið honum trú um, að hann væri að vinna að því að koma honum í n. Svo er sargað í þessum 2 eða 3 prófkosningum, þangað til búið er að reyta allt af Magnúsi Torfasyni, svo að hann stendur berstrípaður, en Bergur Jónsson hefir 10 eða 11 atkv. í flokknum og er kosinn sem fulltrúi í nefndina. Ef Jón í Stóradal hefði fengizt til að kjósa sjálfan sig, hefði hann haft jafnmörg atkv. Áhugi hans á því að komast í n. var nú ekki meiri en þetta. En einlægni hv. þm. S.-Þ. til Magnúsar Torfasonar var hinsvegar ekki meiri en það, að hann sveik hann í tryggðum. Og á þessum fundi tekur svo Magnús Torfason pjönkur sínar, segir skilið við flokkinn og fer. Eftir það man ég ekki til, að hann kæmi á fundi hjá Framsfl. það kjörtímabil út. Síðan er hann alltaf að hrekjast úr einum stað í annan, af því að honum finnst hvergi vera tekið nægilegt tillit til sín, enda hefir oft gengið erfiðlega að þá menn til að viðurkenna hæfileika þá, sem hann þykist hafa yfir að ráða.

Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um ýms atriði í þessu sambandi, sem ég vildi þó, að væru nokkurn veginn ljós, því að ég tel, að það ætti a. m. k. að vera öllum mönnum greinilegt, hvort Magnús Torfason er áfram í Bændafl. eða ekki. Sjálfur hefir hann lýst yfir því, að hann hafi verið hrakinn úr flokknum og að hann gæti ekki verið í honum lengur, sóma síns vegna. Með þessum yfirlýsingum, sem hann hefir gefið á fundum í Árnessýslu, þó að hann komist þar í mótsögn við sjálfan sig, er því slegið föstu, að hann er ekki lengur í flokknum. Og það er engan veginn þýðingarlaust fyrir Bændafl. að losna við Magnús Torfason á þennan hátt, jafnvel þó að hann fengi engan þm. í það sæti, sem Magnús hefir skipað.

Það er margt fleira, sem ástæða væri að minnast á, en mikið af því, sem hér hefir verið gert að umræðuefni, kemur málinu ekki vitund við, og af því að hv. þm. S.-Þ. hefir aðallega fjölyrt inn þau atriði, er ekki ástæða til að ræða þau frekar. Hann er þekktur að því, að þegar hann er orðinn veikur á svellinu, fer hann í allskonar krákustígum út í hin og þessi aukaatriði, sem ekki koma því við, sem um er rætt. Þess vegna hér ekki að taka það alvarlega, þó að margt af því verði látið „passera“ án þess að það sé hrakið, enda þótt í ræðu hans út og grúi af ósannindum, eins og hans er von og vísa. Ég get því fellt úr ræðu minni ýms atriði, sem ég hefði ef til vill annars minnzt á, sérstaklega þar sem hæstv. forseti hefir óskað þess, að umr. yrðu ekki lengdar úr hófi fram.