21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort hann geti ekki nokkurnveginn gefið upplýsingar um kostnað af þessum n., hverri fyrir sig, að svo miklu leyti sem það er upplýst. Ég skil það vel, að ekkert verði enn sagt um fiskimálan., fyrr en hún er tekin til starfa, en um hinar, f. d. síldarútvegsn., hlýtur það að liggja nokkuð ljóst fyrir, hversu mikill kostnaður er orðinn af þeim, væri æskilegt, að sem fyllstar upplýsingar lægju fyrir um þetta, áður en málið fer til n.

Hæstv. fjmrh. kom með tvær ástæður fyrir flutningi þessa frv. Önnur er sú, að þessar n. hafi haft í för með sér allmikinn kostnað fyrir ríkissjóð, en til hans hafi ekki verið tekið fullt tillit við samningu fjárl. þeirra, er nú gilda. Mun það sennilega vera rétt. En áður en fjárl. verða samþ. fyrir næsta ár, mundi vera hægt að taka tillit til þessa kostnaðar, eftir þeim gögnum, sem þá hljóta að liggja nokkurnveginn ljós fyrir.

Hitt atriðið, sem hæstv. ráðh. taldi liggja fyrir flutningi þessa frv., var það, að hver afurðategund bæri sjálf sölukostnaðinn, til þess að það kæmi í ljós, hvert væri raunverulegt verð á hverri voru fyrir sig. Þetta kann að nokkru leyti að vera rétt, en þá mundi vera eðlilegra að láta þetta mál bera öðruvísi að og láta það koma fram sem breyt. á hlutaðeigandi l., og væntanlega fylgdi því þá breytt skipun á hlutaðeigandi n. T. d., ef ég man rétt, þá er síldarútvegsn. þannig skipuð, að Sþ. á að kjósa 3 menn í hana, Alþýðusambandið einn, atvmrh. einn og útgerðarmennirnir, sem sennilega veltur mest á um það, hvort útgerðin getur gengið, eiga að kjósa einn. Alþýðusambandið getur sennilega talizt þar aðili líka að því leyti, sem vænta má, að það vilji gæta hagsmuna þeirra, sem vinna við framleiðsluna. En ef þetta er rétt, sem mig minnir, þá er langt frá því, að þeir, sem að þessu vinna beint og óbeint, hafi meiri hl. í n., en það virðist þó ekki óeðlilegt, að komið gæti fram krafa um það, að þeir, sem bæru kostnaðinn af slíkri n., fengju aðstöðu til að ráða meiri hl. í henni. Sama er að segja um mjólkursölun. og kjötverðlagsn., og um a. m. k. aðra af þeim n. eru komnar fram raddir um það frá framleiðendunum, að þeir fái þar ríkari rétt en þeir hafa nú.

Það er vitanlegt, að um þetta atriði málsins var alger eining á síðasta þingi, og ég minnist þess ekki, að um þetta kostnaðaratriði hafi komið nokkrar raddir í aðra átt en þá, sem lög gerðu ráð fyrir að lokum. (JBald: Jú, jú). Þær raddir munu a. m. k. ekki hafa verið háværar, né margir þm., sem hafa beitt sér fyrir því.

Ég hygg, að þau l., sem sett voru um þetta efni á síðasta þingi, hafi verið sett með fullri samvinnu, a. m. k. við ríkisstj., og að málið hafi verið sumpart eða jafnvel að mestu leyti borið fram samkv. beiðni hennar. Því þykir mér nokkuð skammt liðið til þess, að stj. fari nú þegar að breyta þessu, þegar aðeins nokkrir mánuðir eru liðnir frá því að lögin gengu í gildi.