21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég harma það, að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa við hendina nægilegar upplýsingar um kostnað við störf nefndanna, en ég ætla að vænta, að hann gefi hv. d. nauðsynlegar upplýsingar svo fljótt, sem kostur er á.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekkert samband væri á milli þess, hvernig kostnaðurinn væri greiddur og hvernig nefndirnar væru skipaðar. Um þetta er ég honum, því miður, ekki alveg sammála, þar sem það virðist eðlilegt, ef ríkissjóður greiðir ekki kostnaðinn, þá ætti hann að greiðast af hlutaðeigendum í hlutfalli við það, hvernig þeir skipa nefndina, t. d. þar sem bæjarstjórn á fulltrúa í afurðasölunefnd, þá greiði hún að sínum hluta o. s. frv. Það hefir alltaf þótt rétt í slíkum efnum, að réttindi og skyldur héldust í hendur, þannig að ekki hallaðist á. Verð ég að líta svo á, að það ætti einnig að vera í þessu tilfelli.

Hæstv. fjmrh. hélt því einnig fram, að þar sem framleiðendur og ríkisstj. skipuðu meiri hl. í n., þá væri tryggt, að framleiðendur hefðu meiri hl. Það er nú svo með það sem hvert mál er virt. Það má segja, að framleiðendur hafi meiri hl. þar, sem fulltrúar þeirra og fulltrúi ríkisstj. fylgjast að málum, en ég er nú ekki viss um, að allir framleiðendur líti svo á, að oddamaður ríkisstjórnar sé ávallt framleiðendamegin. Hæstv. ráðh. leit svo á, að afurðasölunni væri það fyrir beztu, að nefndirnar væru skipaðar eins og lögin mæla fyrir. Um þetta atriði var eins og kunnugt er talsvert rætt á síðasta þingi, og ætla ég ekki í þessum umr. að fara inn á það mál, en ég hygg, að um það séu skoðanir líka allskiptar.

Enn er á það að líta, ef framleiðendur eiga einir að bera umræddan kostnað, að þá býst ég við, að fulltrúar þeirra óski gjarnan eftir því, að fækkað verði mönnum í nefndunum. Það er ekki alltaf, að 7 menn vinni meira en 5 eða 3, og þar sem meiri kostnaður er eftir því sem nefndirnar eru fjölmennari, þá býst ég við þeirri kröfu frá framleiðendum, að þeir vilji fækka í n., ef þeir eiga að bera kostnaðinn. T. d. er nú mjólkursalan framkvæmd af tveimur n., sem telja samtals 12 menn, og þó áður væri sagt, að 9 menn ættu að stytta nóttina, þá hefir það ekki þótt duga í þessu tilfelli, en ég hygg, að svo hefði þó verið. Ég hygg, ef framleiðendur hefðu mátt ráða, þá hefðu þeir lækkað mjög mikið tölu þessara manna, og svo mun vera jafnvel um fleiri þessar nefndir. Ég verð að þessu athuguðu að halda því fram, að verulegt samband sé hér á milli þessara tveggja atriða, hvernig nefndirnar eru skipaðar og hverjir greiði kostnaðinn við störf þeirra.