21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Magnús Guðmundsson:

Ég lít svo á, að það sé raunar eðlilegt, að þeir framleiðendur, sem slá sér saman eða skipuleggja sína afurðasölu — ef það þykir réttar orðað svo —, beri kostnað af framkvæmd afurðasölunnar, en þó því aðeins, að þeir sjálfir ráði, hvernig afurðasalan fer fram og hvernig henni er fyrir komið. Það sjá allir, að það er að öllu leyti rangt að neyða vissu skipulagi upp á framleiðendur og heimta síðan, að þeir greiði þar af allan kostnað. Krafa sú, sem frv. felur í sér, er því í sjálfu sér sanngjörn, en hún verður ósanngjörn, þegar framleiðendur fá ekki að ráða þeim framkvæmdum, sem þeir eiga að kosta. Þetta er nauðsynlegt að taka fram, af því að sumar þessar skipulagningar hafa verið drifnar á gegn fullkomnum óvilja meiri hl. framleiðenda. ég þarf í því tilfelli ekki að nefna nema skipulagning fisksölunnar, sem alkunnugt er, hversu deilt var um. En hér er um tvo óskyld viðhorf að ræða. Það er auðvitað allt annað að segja: Þið verðið að skipuleggja sölu ykkar afurða eins og við mælum fyrir, við greiðum kostnaðinn, eða að segja: Þið skipuleggið svo eða svo, og þið berið líka kostnaðinn. — Hið sama er að segja um mjólkursöluna og kannske kjötsöluna, þó ég vilji ekki fullyrða um hana. Ég er á sama máli og hv. 10. landsk. um það, að ákaflega náið samband sé á milli þess, hverjir eiga að ráða framkvæmd afurðasölunnar og hverjir eigi að bera kostnað þeirrar framkvæmdar. Það leiðir af sjálfu sér, að framleiðendur eiga heimting á að ráða þeim framkvæmdum, sem þeir eiga að borga. Aftur á móti er frekar vit í því, að ríkisvaldið fái að ráða framkvæmdunum, ef það ber kostnaðinn. Um þennan kostnað finnst mér vera talsverðar upplýsingar í grg. frv., þar sem hann er áætlaður 100 þús. kr. Það er eðlilegt, að um hann verði ekki sagt alveg ákveðið að svo stöddu, en út af því, að hæstv. fjmrh. var í sambandi við síðasta mál á dagskrá á undan þessu að gera ágreining út af 10 þús. kr. upphæð, sem snerti fjárhag ríkisins á þessu ári, þá vil ég benda honum á, að hann ætlar nú með þessu frv. að krækja ríkissjóði í allverulega upphæð, sem er í fjárlagsáætlun yfirstandandi árs. Fyrir þessum kostnaði var gert í þessa árs fjárlögum. Ég man ekki, hve há upphæð áætluð var; hún mun þó ekki hafa náð 100 þús., en þess var líka getið við umr. um fjárlögin, að hún myndi reynast of lág.

Ég vil svo endurtaka það, að ég álít, að rétt sé að framleiðendur beri kostnaðinn af starfi afurðasölunefndanna, en þó því aðeins, að þeir fái að ráða því einir, hvernig salan fer fram.