25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Guðrún Lárusdóttir:

Það er ræða hv. 4. landsk., sem kemur mér til að standa upp og segja hér nokkur orð. Hann hélt því fram, að húsmæður Rvíkur hefðu í blindni lagt út í mjólkurverkfall með það eitt fyrir augum að knýja niður verð á mjólkinni. (JBald: Ég sagði það ekki). En okkur húsmæðrunum var það ljóst frá byrjun, að verðið getur ekki lækkað, meðan það fyrirkomulag helzt, sem nú er á mjólkursölunni. Það var óánægjan út af þessu fyrirkomulagi og óþægindin, sem það bakaði heimilum okkar, sem gerði það að verkum, að við gátum ekki verzlað við samsöluna, sem ekki heldur virtist vilja skipta við okkur. Það voru þessi óþægindi, sem knúðu okkur til að gera kröfur um breytingar á samsölunni. Hv. þm. veit, hvaða kröfur þetta voru. Það, sem við báðum um, var ekki þess eðlis, að ekki hefði verið hægt að láta það eftir, og þá hefðu mjólkurlögin, það þori ég að fullyrða, gengið greiðara fram. Við báðum ekki um annað en betri mjólk og frjálsari sölu. Þetta voru hóflegar kröfur og alls ekki ósanngjarnar frá stórum hópi neytenda.

Ég vildi leiðrétta það, sem hv. þm. bar fram, að við höfum viljað knýja niður verð mjólkurinnar. Við vissum, að það var ekki hægt með því skipulagi, sem á sölu hennar er. En hinsvegar er það von okkar, að þær komi stundir, að hægt sé að lækka verð hennar.

Það er annars bágt að skilja þá verzlunaraðferð eða þá hagsbót, sem í því ætti að felast í viðskiptum, að ýta kaupendum frá sér í stað þess að laða þá að sér.

Hv. þm. hældist um, að mjólkurverkfallið væri að dvína, það yrði ekki úr því nema bóla, sem hjaðnaði niður. Ég er ekki viss um, að þm. viti vel um það, sem hann er að segja. Óánægjan með mjólkursöluna er mikil, og hún verður ekki minni, þar til lögun fæst á þessu máli. Það er alvörumál húsmæðranna að fá söluna lagaða, og það ætti ekki síður að vera alvörumál fyrir þá, sem eiga að sjá um söluna fyrir bændur. Því að þessum aðiljum, neytendum og bændum, getur ekki orðið gagn að viðskiptunum hvorir við annan, nema þeir séu sáttir. Og ég vona, að þessir tveir aðilar geti komið á sáttum með sér.

Ég vil að síðustu undirstrika það, að það var ekki mjólkurverðið, heldur óþægindin, sem leiddu af fyrirkomulagi mjólkursölunnar, sem fékk okkur húsmæðurnar í Rvík til að hefjast handa í þessu máli.