25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Ég varð ekki mikils vís af ræðu hv. 5. landsk. um það, hvaða árangur hefði orðið af samtökum þeim, sem hún hefir gengizt fyrir hér í bænum með öðrum húsmæðrum, nema það var ekki til að knýja niður verðið; það tók þessi hv. þm. rækilega fram. Helzt skildist mér, að kröfur þeirra væru um meiri og betri mjólk og frjálsari brauðsölu. (PHerm: Og dýrari). Ég skil nú ekki, að gera hafi þurft sérstaka kröfu um meiri mjólk. Mér er ekki kunnugt um, að hér hafi verið né sé neinn mjólkurskortur. En hinsvegar er mér kunnugt um, að viss hluti Sjálfstfl. óskaði ekki eftir því um tíma að neyta meiri mjólkur, þó það gengi ekki nema að litlu leyti út yfir söluna hér í bænum, vegna gagnsamtaka. Annars er mjög auðvelt að bæta úr, ef mjólkurskortur er hér í bænum, því mér er ekki kunnugt um annað en að mjólkurbúin austanfjalls hafi næga mjólk, sem þar er nú unnið úr daglega. Ég held því, að það sé mjög auðvelt að flytja meiri mjólk hingað á markaðinn, ef þess er þörf, og uppfylla þannig þessa kröfu hv. 5. landsk. Um betri mjólk má auðvitað alltaf deila; það er auðvelt að vekja deilur um gæði mjólkurinnar. En ég veit ekki betur en mjólkin komi frá sömu bændum og var fyrir 15. jan., a. m. k. að langmestu leyti, og sömuleiðis að hún sé úr h. u. b. sömu kúm. Það er því að mestu leyti sama fólk nú og var fyrir 15. jan. s. l., bæði sem framleiðir mjólkina og neytir hennar. Ég held því, að mjólkin hljóti að vera mjög svipuð. En það getur vel verið, að Sjálfstfl. þyki það ekki skemmtilegt eða æskilegt, að aðrir menn ráði þessum málum en þeir hafa óskað. Ég held því, að það megi telja alveg víst, að þessi samtök, sem hv. 5. landsk. hefir myndað hér í bænum ásamt nokkrum öðrum konum, séu pólitísk umbrot, til að reyna að flækja mál, sem verið var að greiða úr, m. a. með því að minnka dreifingarkostnaðinn til ágóða fyrir bæði framleiðendur og neytendur; úr þessu öngþveiti var verið á góðum vegi með að leysa. En hv. 5. landsk. og öðrum aðalmálsvörum Sjálfstfl. hefir sviðið það, ef núv. stjórn tækist að leysa þetta mál, og vildu því skapa glundroða í þá skipan, sem á var komin. Það er því ekki út af ónógri mjólk eða út af einokun á brauðinu, sem þau eru mynduð þessi samtök íhaldskvennanna hér í bænum. Ef þau byggjast á því, þá get ég sagt hv. 5. landsk., að þau eru byggð á hringlandi vitlausum grundvelli. Hv. 5. landsk. getur sjálfsagt eins og hver annar keypt brauð hjá hvaða brauðgerðarhúsi sem vera skal. En að í búðum samsölunnar skuli aðallega vera seld brauð frá einu brauðgerðarhúsi, það liggur í því, að teknar eru á leigu mjög margar búðir frá stærsta brauðgerðarhúsi bæjarins, sem í 20 ár hefir hnitmiðað niður búðir sínar, þar sem fólkið er flest. Þetta er því augljóst hagsmunamál samsölunnar því þar sem selst mikið af brauði, selst líka mikil mjólk, og hvorttveggja er hennar hagur, auk þess sem þetta var algerlega frjálst útboð eftir principi hv. 1. þm. Reykv. (MJ: Þetta er hrein vitleysa). Þetta er rétt. Það var leitað til bakarameistaranna, fylgismanna hv. þm. (MJ: Það var ekki boðið út). Þeir sátu fundi með n., en sögðust ekki vilja gera tilboð. Þetta var því algerlega frjálst útboð, eftir fínustu principum kaupmannastéttarinnar. (MG: Þessu var enginn að finna að). Hv. flm. brtt. var að finna að þessu. — Þá var hv. 5. landsk. þm. að tala um, að lögin hefðu ekki verið framkvæmd með velvilja. En voru þau þá framkvæmt með óvilja? Og hver var sá óvilji?

Ég veit það, að það voru dálítil óþægindi í byrjun, en alls ekki illvilji í framkvæmd. Það væru t. d. óþægindi, að búðum var fækkað úr 100 niður í 33. Það kunna að verða fleiri spor fyrir einstaka fjölskyldu, en þetta eru aðeins óþægindi í bili. Yfirleitt var það tónninn í ræðu hv. þm., að allt ætti að vera frjálst, og ræðan var ekki annað, verðið átti ekki að lækka, en allt átti að haldast í sama horfinu og var. Það þýðir vitanlega meiri kostnað við dreifingu mjólkurinnar. Það þýddi að halda uppi 60—70 óþarfa búðum. Ég skil nú ekki þann velvilja, sem kann að eiga að felast í þessu í garð bændanna, að halda uppi fleiri búðum en þarf, með öllum þeim kostnaði, sem því fylgir. Hv. þm. getur þegar séð hagnaðinn af þessari sparsemi, þó ekki sé hann stórvægilegur. Það er 1 eyrir pr. lítra til hvors aðila, neytanda og framleiðanda. Það lætur ekki mikið í eyrum hv. þm., en fremur ber það vott um velvilja en hitt, og í þessa átt ber að stefna. En ef hv. 5. landsk. hefði átt að ráða og hennar nánustu fylgifiskar, þá hefðu allir mátt setja upp búð hvar sem þeim sýndist, með þeim kostnaði, sem óhjákvæmilega mundi af því leiða, og verða að takast með hærra mjólkurverði.

Það voru óþægindi í bili að taka fyrir útlán á mjólk, en það verður heldur engin umbót gerð, nema því fylgi óþægindi fyrir einhvern eða einhverja. Ég veit, að það eru óþægindi fyrir þá, sem ekki þurftu að borga mjólkina fyrr en eftir 30—35 daga, að verða nú að borga strax, — en það tekur ekki langan tíma að komast yfir slík óþægindi. En hvað er um þá fátækustu og aumustu, sem aldrei geta fengið lán? Þeir hafa orðið að greiða jafnótt, því þeir höfðu ekki auraráð, og gátu því ekki „fengið krít“. Ekki er það umhyggjan fyrir þeim að fá áframhaldandi lánsviðskipti. Mér skilst, að það, sem hv. þm. hefir borið hér fram, réttlæti ekki á neinn hátt, að umsteypa þurfi frv. þessu, eða séu till. til umbóta. Það er ekkert nema pólitísk þægindi fyrir hana og hennar flokk, en óþægindi andstöðufl. Þetta er auðskilið, enda skilja það allir svo, og það er skiljanlegt, að erfitt sé fyrir hv. þm. að halda mjólkurverkfallinu áfram meðan ekki er meiri þátttaka en er.

Hv. 1. þm. Reykv. var að bera þetta saman við ýmislegt, sem þjóðfélagið lætur gera eða gerði, eins og t. d. framlög vegna skólaskyldu, berklavarnakostnaðar, sjúkrahúsa o. s. frv., sem þjóðfélagið skyldaði menn til og þætti því ekki fært annað en taka þátt í. Þó þetta virðist í fljótu bili vera rök, þá er svo ekki, þegar nánar er að gáð. Þetta eru ráðstafanir, sem þjóðfélagið gerir vegna allra þegna sinna. Þau er t. d. ómögulegt að segja, hver verður fyrir því óláni síðar í lífinu að þurfa berklavarnastyrk; það getur hent hvern sem er og úr hvaða stétt sem er.

Það sama gildir um sendiherra eða sendinefndir til erlendra ríkja; þeir eiga að gera almennar ráðstafanir, sem ekki er hægt að heimfæra sérstaklega til einnar stéttar, heldur til atvinnuvega landsmanna yfirleitt.

En það er dálítið annað t. d. þegar sett er kjötsölunefnd til að ráðstafa sölu kjöts og hafa hana með höndum; þá virðist mér augljóst, að kostnaður við þá n. eigi að greiðast af framleiðslunni, því sú nefnd hefir ekki annað starf með höndum. Mjólkursölunefnd er sett til að ráðstafa mjólkursölunni, síldarútvegsnefnd til að greiða fyrir síldarsölu, og fiskimálanefnd til að ráðstafa fisksölunni. Þetta eru allt sérstök verkefni út af fyrir sig í þágu framleiðslunnar, sem rétt er, að hún beri kostnaðinn af. (MJ: Þetta er alls ekki ágreiningsmál). Þetta er ekki ágreiningsmál, segir hv. þm., en ég er að bera saman rök hans til að sýna, að hann fer með rökvillur. (MJ: Skelfing er að vita. ef hv. þm. skilur þetta ekki). Mér skilst, að þetta sé mjög augljóst mál, að kostnaðurinn við berklavarnir er almennur, en hitt er aftur á móti sérstakur kostnaður, sem leiðir af ráðstöfunum vegna skipulagningar á sölu kjöts eða mjólkur. Því síður er þetta rétt hjá honum, sem þeir, sem eiga að ráða þessum málum, eru menn úr báðum þeim hópum, sem hér eiga hagsmuna að gæta. Ég veit ekki betur en að það sé svo með kjötverðlagsn., ég veit, að það er svo með mjólkursöluna. (MJ: Nei, nei), síldarútvegsn. (MJ: Nei, nei). Hann getur sagt „nei, nei“ svo lengi sem hann vill, en það er á móti sannleikanum. (MJ: Ég hefi það hér skrifað hjá mér, hverjir eru í öllum þessum n.). Já, það væri ekki nema gott að fá að heyra þau nöfn. Ég man ekki nöfn allra þessara manna, en það verður kannske hægt að afla sér þeirra, og er þá hægt að sýna fram á, að hv. þm. er hér að vitna á móti sannleikanum.

Svo er þetta atriði, sem ekki verður um deilt, að dreifing mjólkur í Reykjavík og dreifing á kjöti, þetta eru mál neytendanna líka. Þeim er ekki sama, hvernig þetta er gert. Framleiðendunum á ekki heldur að vera sama, þó að þeir styggi neytendurna. Ef þeir gerðu á hlut neytendanna, þá mundi það koma fram. Það hefði sýnt sig, ef mjólkursölun. hefði gengið freklega á hlut neytendanna, þá hefðu samtök jafnvoldugs stjórnmálaflokks og Sjálfstfl. er hér í bæ, borið meiri árangur en þau gerðu. Það er alveg áreiðanlegt, að ef almenningur hér í bænum hefði haft nokkra verulega ástæðu til að finna að framkvæmdum mjólkursölun., þá hefði Sjálfstfl. getað komið upp hér í bæ samtökum, sem hefðu eyðilagt samsöluna, en það hefir ekki tekizt betur en þetta, af því að málstaðurinn er ekki góður. Og það vil ég leggja hv. 5. landsk. á hjarta og biðja hana að athuga, hvort málstaðurinn er svo góður og hvort hann hefði ekki fengið meiri árangur, ef hann hefði haft við þau rök að styðjast, sem hefði gert þessa hreyfingu Sjálfstfl.kvennanna í bænum réttmæta.

Hv. 1. þm. Reykv. var að svívirða þá menn, sem hafa unnið að þessu máli. Hann talaði um einhverja dóna, sem væðu þar uppi. Ég veit ekki, hvert hann stefnir þessum orðum sínum. Það, sem hann á hér við, er það, að það hefir orðið að taka föstum tökum á þessu máli, og það hefir orðið að gera ýmsar ráðstafanir. m. a. vegna þess, að Sjálfstfl. hefir farið með hinn mesta fláttskap í þessu máli og sýnt sig þann dæmalausa ræfil. Annarsvegar hefir hann kitlað Reykvíkinga, fyrst með því, að verðið ætti að lækka, síðan að ætti að gera söluna frjálsa o. s. frv. Hinsvegar hefir hann sent út um sveitir landsins og kitlað bændur með því, að neytendur ættu hér engu að ráða, það væru framleiðendurnir sjálfir, sem ættu að taka stjórnina í sínar hendur, eins og þeir hafa orðað það. En nú er búið að endavenda þessu svo, að þessi krafa, sem neytendurnir hefðu haft fulla ástæðu til að taka undir, verðlækkun á mjólkinni, hún hefir algerlega verið strikuð út, og hv. 5. landsk., fulltrúi neytendanna, vill neita henni. Auðvitað hefir hv. þm. verið kúgaður til þess af sínum flokki að breyta málinu í þetta horf. Það, sem hún heimtar nú, er þveröfugt við verðlækkun, gera mjólkina frjálsa, láta allt verða eins og það var áður, þó að hún viti, að það hlýtur að leiða til þess, að meiri kostnaður leggst á mjólkina, og hann hlýtur annaðhvort að koma niður á bændunum með lægra verði, eða þá að mjólkin á að hækka til neytendanna. Það er þessi fláttskapur sjálfstæðismanna, þessi tvískinnungur í framkomu þeirra hér í bænum og úti um sveitirnar, sem er nú svo augljós, að þeir hafa orðið sér til hinnar mestu minnkunar í þessu máli.