25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Meiri hl. af ræðu hv. þm. N.-Ísf. var á vanþekkingu byggður. Hann hélt því fram, að ég vissi ekki, að saltfiskinnflutningurinn til Spánar hefði verið takmarkaður. Ég skal játa, að það væri vanþekking, ef ég vissi þetta ekki. Hitt er undarlegra, að nokkur þm. skuli leyfa sér að eyða tíma hv. d. með svona rugli.

Ég vil ekki vera að deila um það, hvort orðið hafi samkomulag eða ekki samkomulag í fisksölumálunum. Hv. þm. viðurkenndi sjálfur, að ekki hefði orðið samkomulag. Og Vilhjálmur Þór var umboðsmaður margra framleiðenda. Sama er að segja um síldarsölumálin. Þar varð að grípa til löggjafarinnar. Þar var deilt um hið sama, sem sé það, hver eigi að sitja fyrir markaði á mismunandi svæðum. Er ekki nema sjálfsagt, þegar svo stendur á, að löggjafarvaldið grípi í taumana til þess að sjá um, að ekki verði fáeinir einstaklingar látnir sitja fyrir.

Út af þessu sama voru spunnar umr. í mjólkurmálinu. Nærri því allir fulltrúarnir á fundinum í Mjólkurbandalagi Suðurlands viðurkenndu, að mjólkursölun. yrði að fara með viðkvæmustu málin, er snerta mjólkursöluna, svo sem skiptingu markaða, verðjöfnun o. þ. h.

Sama hefir greinilega komið fram í öðrum afurðasölumálum, þar sem eru vissir sameiginlegir hagsmunir, en þó svo ósamkynja, að ekki er hægt að láta allt dankast og láta kné fylgja kviði.

Á þessu sprakk Union. T. d. sögðust Austfirðingar aldrei beygja sig undir fyrirkomulag það, sem var, og þóttust hafa orðið afskiptir.