25.03.1935
Efri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það er nú búið að draga mjólkurmálið inn í umr., svo ekki er hægt að komast hjá að svara ýmsu því, sem fram hefir komið, þó ég leiddi það hjá mér allan fyrri hluta dagsins.

Ég beindi fyrirspurn til hv. 1. þm. Reykv. um hverskonar ólag væri á mjólkursölunni. Hann benti á óánægju framleiðenda og vísaði til fundar þeirra um málið. Ég verð nú að segja, að sá fundur út af fyrir sig var frekar smávægileg ádeila á mjólkursöluna í bænum. Þá voru ekki allir sammála um það fyrirkomulag, sem koma ætti í staðinn. Það er viðurkennt og mér dettur ekki í hug að neita því, að enn séu á þessu ýmsir gallar, sem er verið að laga og verða lagaðir, en hitt kemur ekki til mála, að breyta grundvellinum, jafngóður árangur og fengizt hefir.

Ég ætla að segja hv. 1. þm. Reykv. það, að svo mikið sem hann og hans flokksblöð hafa agiterað og barizt fyrir mjólkurverkfalli síðustu vikurnar, hefir það nálega engan árangur haft. Má nokkuð af því ráða, hvort margt muni vera í tilfinnanlegum ólestri, fyrst ekki er hægt að verja út af því neina verulega óánægju.

Ég skal sérstaklega benda á, að neyzla á stassaniseraðri mjólk hefir tvöfaldazt síðan Samsalan tók til starfa, og er nú langmest notuð hér í bænum, þó fólk geti enn fengið ógerilsneydda mjólk frá framleiðendum hér í nágrenninu eftir því sem það óskar. Ég spurði einn mann í gær, sem selur beint, hvort eftirspurn væri ekki mikil eftir mjólkinni. Hann sagði, að það væri rétt á takmörkum, að hann gæti selt.

Það kom til mála að stöðva söluna hjá honum einn dag, vegna þess að fjósið var ekki í sem beztu lagi, og óttaðist hann mjög um að tapa við það af sölu framvegis. Bendir þetta ekki til þess, að eftirspurn eftir ógerilsneyddri mjólk sé eins mikil og látið er í veðri vaka.

Þá kem ég að því, sem sérstaklega virðist hafa hneykslað hv. 1. þm. Reykv., sem er valið á form. mjólkursölun., Sveinbirni Högnasyni. Taldi þm., að það hefði meir verið valið eftir pólitík en með hag bændanna fyrir augum.

Án þess að fara langt út í þær árásir, sem gerðar hafa verið á Sveinbjörn, og vitanlega eru fyrst og fremst — og í raun og veru eingöngu — gerðar af pólitískum ástæðum, vil ég aðeins segja það, að þeim er erfitt að mæta öðruvísi en á þeim vettvangi, sem til þeirra er stofnað.

Það er sérstaklega eftirtektarvert, að því er stöðugt haldið fram, að stofnað hafi verið til ófriðar í n. með skipun Sveinbjarnar Högnasonar. Í n. eru einnig Egill Thorarensen, kosinn af mjólkurbúunum austanfjalls, og Eyjólfur Jóhannsson, kosinn af Mjólkurfélagi Reykjavíkur. Og það er einmitt milli þessara tveggja síðasttöldu manna, sem valdir eru í n. af bændunum, sem aðaldeilan hefir staðið. Þó hefir Eyjólfur Jóhannsson í 17 ár fengizt við mjólkursölu í Rvík fyrir Mjólkurfélag Reykjavíkur, og Egill í mörg ár staðið fyrir mjólkursölu fyrir Árnesinga. Þetta stafar vitanlega af þeim eðlilegu ástæðum, að þeir hafa umboð fyrir viss svæði, en hagsmunir þeirra rekast á.

Reynslan hefir því sýnt, að mestur styr hefir staðið um þá mennina í n., sem bændurnir hafa sjálfir tilnefnt. Það er því ekki friðvænlegra, nema síður sé, ef bændur ættu að tilnefna alla mennina í n.

Samkomulagið í Mjólkurbandalagi Suðurlands sannar það gagnstæða. En ég hefi engan úr mjólkursölun. heyrt segja annað en Árni Eylands væri algerlega óhlutdrægur í málinu.

Þá var þm. að finna að því, að ekki væri greitt fyrir mjólkina, sem lögð væri inn í Samlagið, fyrr en eftir mánuð. Það mun nú vera greitt tvisvar í mánuði, en hefir áður þótt gott, hafi greiðsla komið innan þriggja mán., og skal ég upplýsa, að það kom fram á fundi í dag, að M. R. er ekki búið að greiða að fullu fyrir des.mán. Mánaðaruppgjör væri því mikil framför frá því, sem áður var. Það hafði verið rætt um það í n. að greiða oftar, en fulltrúi M. R. mælti á móti því vegna þess, að það ylli óþarfa kostnaði og væri ástæðulaust. Þessa aðfinnslu þýðir því ekki að bera fram. — Ég skal ekki fara langt inn á umr. um lánið. Það var tekið til þess að greiða ýmislegan stofnkostnað, t. d. voru keyptir 4 bílar o. fl. Þeir menn, sem hafa lagt sig niður við að rægja Samsöluna, mega reyna að nota sér það, ef þeir vilja, að henni var veitt heimild til þess að taka lán til stofnkostnaðar. Nú fyrir viku var ekki búið að taka lánið, og er óvíst, að þess þurfi með.

Þá hefir verið minnzt á brauðsöluna, og skal ég ekki fara mikið inn á það. Þó skal ég geta þess, að það var réttilega tekið fram hjá hv. 1. þm. Reykv., að brauðgerðarhúsin í bænum gerðu tilboð um að ganga inn í lægsta tilboð. En hvar í víðri veröld skyldi það eiga sér stað, ef gert er útboð um að smíða hús eða brú, að hundsa þannig þann, sem lægsta tilboðið hefir gert? (MJ: En hér var ekki útboð á venjulegan hátt). Þó ég hafi ekki beinar sannanir, var það vitanlegt, að n. bauð mjólkursöluna út og hafði því enga ástæðu til að brjóta viðurkennda reglu, enda viðurkennt á almennum fundi, að framkoma bakara hafi verið óforsvaranleg. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ég tæki á mig mikla ábyrgð með því að halda áfram í sama horfi og ég hefi gert. Ég er ekki í vafa um þá ábyrgð, sem á mér hvílir; en ef það fer nú eins illa um Samsöluna og hann spáir, og hin pólitíska ábyrgð verði mér of þung, býst ég við, að hv. þm. yrði ekki mjög óánægður yfir afleiðingunum. Það er a. m. k. áhættulaust að gera þessa tilraun. Nú fá bændur í Mosfellssveit 26 aura fyrir lítra, þó þeir greiði 3 aura verðjöfnunargjald, en fengu áður 24,4 aura. Auk þess er búið að senda yfir 20 þús. kr. í verðjöfnunargjald austur yfir fjall. Svo mikið er víst, að undir þessu fyrirkomulagi, sem reynt hefir verið með öllum ráðum að eyðileggja, hefir stórlega unnizt á fyrir bændur um verðlag á þeirra aðalframleiðslu.

Mér dettur því ekki í hug að kasta af mér ábyrgðinni með því að láta framleiðendurna kjósa fulltrúaráð til þess að sprengja Samsöluna. (MJ: Ekki þó þingið samþ.?). Ég ætla heldur að halda áfram í sama horfi og láta hana sýna sig til fulls.

Ég veit, að það fer að vísu mikið í herkostnað og stímabrak við óvini samsölunnar, og væri hagnaðurinn sjálfsagt orðinn 1—2 aur. meiri á lítra, ef allt hefði fengið að ganga fram á friðsamlegan hátt. En það er þó betra að taka upp þá baráttu en að sleppa af samsölunni og láta ríkja samskonar fyrirkomulag og var innan Mjólkurbandalags Suðurlands, og nú á að reyna að draga samsöluna út í, þar sem barizt var svo um mismunandi hagsmuni, að allt logaði í ófriðareldi. Það er verið að reyna að kveikja óánægjueld meðal bænda hér í nágrenninu með því að segja þeim, að þó þeir hafi unnið 2 aura, eigi þeir að geta fengið 5 aura. Nei, ég ætla ekki að sleppa samsölunni út í þann bardaga, heldur halda í því horfi, sem þegar er tekið, og láta hvert svæði njóta jafnréttis. Eitt af því, sem borið hefir verið út um bæinn, er, að Flóabúið ráði öllu og beri svo allan hagnaðinn, en hin búin væru afskipt. Ég fór því á fund, þar sem rætt var um þessi mál, og var þar viðurkennt af aðilum, að Ölfusbúið hefði selt eins mikið og í fyrra og Borgarnesbúið meira, og þó allt selt hér úr nágrenninu. Um þetta þarf því ekki að deila. Sannleikurinn er sá, að einmitt sá aðilinn, sem mest hefir verið úthúðað, Egill í Sigtúnum, hefir frekast látíð ganga út yfir sitt bú.

Þá hafa heyrzt raddir um það, að ef fulltrúaráð yrði kosið, væri ýmislegt, sem þyrfti að raska við. Á það víst að þýða það, að öllu eigi að koma aftur í gamla lagið eins og það var hjá Mjólkurfél. Reykjavíkur. En þá ætla ég heldur að standa eða falla með samsölunni.