26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Magnús Guðmundsson:

Ég læt mig það litlu skipta, þó að hæstv. ráðh. sletti í mig skammaryrðum. Það er síður hans í umr. En ég hélt mig aðallega að málinu. Þó að hæstv. ráðh. fari út í persónulegar ádeilur, þá skipti ég mér ekki af því.

Allir vita, að þessi hæstv. ráðh. á allt sitt pólitíska líf undir jafnaðarmönnum. Það þýðir ekki að neita því. Allir vita, að framkvæmd mjólkurmálsins var eftir fyrirskipun frá jafnaðarmönnum. Hæstv. ráðh. hefir sjálfur látið það í ljós, að hann væri óánægður með ýmislegt í málinu, en það yrði svo að vera.

Hæstv. ráðh. lætur mikið af því, að Korpúlfsstaðabúinu hafi ekki verið sýnd ósanngirni. En þá hlýtur því að hafa verið sýnd of mikil sanngirni, þegar ráðh. gaf út fyrra bréfið. Bæði geta þau ekki verið réttmæt.

Er hæstv. ráðh. gaf út fyrra bréfið, þá telur hann rétt, að Korpúlfsstöðum sé veittur réttur til að vélhreinsa mjólk. En þegar ráðh. kemur aftur frá Khöfn eftir mánaðartíma eða svo, þá tekur hann leyfið aftur. Af hverju? Af því hann fékk um það fyrirskipun.

Mér dettur ekki í hug að fara að tala hér um frv. Nd. um breyt. á mjólkursölul., þó að hæstv. ráðh. gerði það. Ég elti hann ekki á þeim fíflskaparbrautum. Mér skildist hann taka flokksmann sinn, hv. þm. Mýr., á kné sér og telja hans till. í Nd. í mjólkursölumálinu sæmilega. Það er gott, ef hæstv. ráðh. er ánægður með þessar till. hv. þm. Mýr. við fáum að sjá, þegar það mál er tekið fyrir, hvað mikil alvara þetta er.

Ég get ekki vel sagt um það, hvað gerzt hefir á fundinum, sem hæstv. ráðh. tilfærir fréttir frá. Ég hefi séð niðurstöður af þeim fundi, þar sem segir, að ráðh. hafa ekki haft nema 3 atkv. af 18. Og nokkrir þeirra, sem greiddu atkv. á móti, voru hans eigin flokksmenn, og ekki einungis hv. þm. Mýr., ef hann hefir haft þar atkvæðisrétt, sem ég hugsa, að ekki hafi verið. — En það, sem ég vildi fá svar við hjá hæstv. ráðh., er það, hvers vegna hann gaf út tvö bréf viðvíkjandi Korpúlfsstaðabúinu, sem stangast á innbyrðis, þar sem annað leyfir það, sem hitt bannar.