26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi ekki haldið því fram, að Korpúlfsstaðir hafi verið beittir órétti. (Forsrh.: Hv. þm. flytur mál þeirra, sem líta svo á). Ég var aðeins að spyrja hæstv. ráðh., hvers vegna hann hefði gefið út bréf, sem leyfði þessu búi að vélhreinsa mjólk, en gefur svo skömmu síðar út annað bréf, sem bannar þetta sama.

Hann var að leitast við að svara því til, að þegar bráðabirgðalögin voru gefin út í sept.mán. síðastl., þá hefði hann gefið búunum þetta leyfi fyrst um sinn. Ég þori ekki að staðhæfa, hvenær ráðh. gaf út sitt fyrra bréf, en mig minnir að það væri í des., en ekki í sept.mán. (Forsrh.: Jú! Það var í sept.). Ég get fengið að sjá það, og skal ég ekki saka hæstv. ráðh. um að fara með rangt mál, þó mér þyki það líklegt. En ég skal fá þetta upplýst fyrir 3. umr. og láta þá rannsókn skera úr, hvor fer með rétt mál. (Forsrh.: Það eru seinni bréfin, sem þm. á við). Ég er að tala um tvö bréf í þessu efni, útgefin af hæstv. ráðh. Bréf, sem hann segist hafa gefið út strax þegar bráðabirgðalögin voru gefin út, og annað bréf, sem út var gefið þegar samsalan tók til starfa.

Svo er hitt atriðið, viðvíkjandi því, að ráðh. hafi tekið þessi réttindi af öllum búunum samtímis; finnst mér það skipta litlu fyrir búin austanfjalls. Því úr því að hæstv. ráðh. gat breytt fyrirskipunum eins og ég hefi bent á um Korpúlfsstaðabúið, þá getur hann enn breytt því viðvíkjandi búunum fyrir austan fjall.