30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Magnús Guðmundsson:

Þegar þetta mál var hér til 2. umr., átti ég nokkurn orðastað við hæstv. forsrh. út af meðferðinni á Korpúlfsstaðabúinu. Hann vildi halda því fram, að ég hefði sagt, að það hefði verið beitt hlutdrægni, og skal ég ekki fara nánar út í það. En það, sem gerir það að verkum, að ég stend upp, er það, að hæstv. forsrh. hélt því fram, að hann hefði leyft mjólkurbúinu á Korpúlfsstöðum að selja mjólk eins og verið hafði á meðan bráðabirgðalögin frá því í sept. 1934 voru í gildi. Ég dró þetta þá í efa og hélt því fram, að það væri mjög skammt á milli þessara tveggja bréfa, sem hæstv. ráðh. ritaði Korpúlfsstaðabúinu, og lofaði ég þá að útvega þessi bréf, og þau hefi ég nú með höndum. Fyrra bréfið er dagsett 14. jan. 1935, m. ö. o. eftir að nýju l. voru komin, en það síðara 18. febr. s. á., eða rúmum mánuði síðar. Hæstv. ráðh. hefir því skýrt hér rangt frá. Í bréfinu frá 14. jan. er það tekið fram, að ráðuneytið löggildi mjólkurbúið á Korpúlfsstöðum til framleiðslu á vélhreinsaðri mjólk og rjóma, smjöri og skyri. En svo í bréfinu frá 18. febr. er þetta leyfi tekið aftur. Þetta er hvorttveggja gert skv. ákvæðum hinna nýju l., en ekki hinna eldri, eins og hæstv. forsrh. sagði. — Ég vil þess vegna slá því föstu hér með, að það var rétt, sem ég hélt fram við 2. umr. þessa máls, en rangt, sem ráðh. sagði.