02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Ég skal nú ekki lengja mikið umr.

Ég geri ráð fyrir, að hverjum einasta manni, sem eitthvað þekkir til skógræktar hér á landi, sé það ljóst, að það, sem ber að stefna að, sé það, að við getum alið upp sjálfir þær plöntur, sem menn vilja fá til þess að prýða heimili sín með. Ég geri líka ráð fyrir því, að mönnum sé ljóst, að það sé fyrst og fremst skógræktin, sem eigi að leysa það hlutverk af hendi að ala upp plöntur handa mönnum. Það er vitanlegt, að fé til skógræktar hér á landi hefir verið skorið mjög við neglur, og hún því litlu getað áorkað um stofnun og starfrækslu trjástöðva til að ala þessar plöntur upp. Þess vegna hafa plöntur verið fengnar erlendis frá, og það eru margir, sem hafa fengizt við að flytja þær inn. Með þessu frv. er reynt hvorttveggja í senn, að flýta fyrir því, að skógræktin geti leyst það hlutverk af hendi að ala upp plöntur í landinu sjálfu, með því að auka tekjur hennar af ágóðanum af sölu erlendu plantnanna og að flytja inn plöntur, sem nokkurn veginn er öruggt, að geti lifað hér á landi. Þetta er mergurinn málsins í frv., og ég get ekki skilið, hvernig nokkur maður getur verið á móti því, að þessu takmarki verði náð sem fyrst.

Hv. þm. V.-Húnv. hefir hvað eftir annað sagt, að þetta frv. væri fram komið til þess að taka af Sigurði fyrrv. búnaðarmálastjóra þær tekjur, sem hann hefði af þessari verzlun haft. Þetta hlýtur annaðhvort að vera byggt á misskilningi eða sagt móti betri vitund, því blómaverzlunin Flóra hér í bæ er ekki eign Sigurðar, heldur barna hans. Ef þess vegna hv. þm. V.-Húnv. vill halda því fram í alvöru, að hér sé verið að svipta Sigurð búnaðarmálastjóra sérstaklega einhverjum tekjum, þá segir hann um leið, að Sigurður noti verzlunina og nafn sinna barna til þess að smokka sér undan þeim skyldum, sem á verzluninni hvíla, og vænti ég, að hv. þm. sé ekki að bera honum það á brýn.

Ég vænti, að allir sjái, að þetta frv. er einungis fram borið til þess að tryggja það, að til landsins flytjist plöntur, sem menn hafi vissu eða sterkar líkur fyrir, að hér geti lifað og flýta fyrir því, að skógræktin geti sem fyrst annað því hlutverki, sem henni ber að leysa af hendi, að ala upp plöntur í landinu sjálfu handa þeim, sem kaupa vilja plöntur til prýði á heimilunum eða beint til skógræktar.