06.03.1935
Neðri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hafði búizt við, að hv. landbn. myndi koma á framfæri hér í d. áliti frá Búnaðarfél. Ísl., sem ég hygg, að liggi fyrir í þessu máli. Ef til vill hefir flm. þótt hyggilegra að stinga því undir stól, og get ég vel skilið það eftir fyrri framkomu.

En þangað til eitthvað heyrist frá hv. n. því ég geri ráð fyrir, að landbn. muni vilja birta hér í þinginu áliti frá Bf. Ísl. —, þá vil ég kvitta örlítið fyrir sendingu frá hv. þm. A.-Húnv., sem hann sendi mér við 2. umr. þessa máls hér í d., eftir að ég hafði talað mig dauðan. Hann vildi gera mikið úr því, að ræða mín þá hefði verið full af mótsögnum, þar sem ég héldi því fram, að með frv. þessu væri verið að skapa Sigurði Sigurðssyni fyrrv. búnaðarmálastjóra fjárhagslegt tjón, en teldi þó, að ríkið mundi hafa litlar tekjur af einkasölu þessari. Fyrst og fremst talaði ég ekki um fjárhagslegt tjón, sem Sig. Sig. bíði við samþykkt frv. þessa, eða nokkur annar maður, en ég taldi frv. óþarfa áleitni við menn eins og Sig. Sig., sem hefir sýnt, að hann er fyllilega fær um að sjá um innflutning trjáplantna. Þetta er ekki annað en útúrsnúningur hv. þm. A.-Húnv., sem ég vona, að hann færi ekki að halda fram aftur nú, að neinir einstakir menn missi stóran gróða, þó þessi einkasala sé stofnuð. Ég held, að það sé ekki alveg ástæðulaust, þó ég fari nánar út í þetta mál eða út í starfsemi þess manns, sem nú er ætlazt til, að taki þetta í sínar hendur, að hann dregst hér inn í umr., er ekki mér að kenna, heldur verða flm. að taka þá ábyrgð á sig. Ég skal fyrst minnast á, að þessi maður, sem á nú að taka við þessari verzlun, hefir haft slíka verzlun á hendi 2 síðastl. ár. Og hvernig hefir hann rekið þetta? Getum við búizt við, að þegar hann er orðinn alveg einráður, fari þessi starfsemi honum betur úr hendi? Hann byrjar á því fyrsta árið að flytja inn trjáplöntur frá Sjálandi — frá Danmörku — frá þeim stað, þar sem bezt skilyrði eru til trjáræktar. Er þetta hyggilegt? Það er talið mjög vafasamt af þeim, sem bezt vit hafa á þessum málum, og ég held, að ég megi fullyrða, að enginn þeirra hafi flutt inn trjáplöntur þaðan, heldur t. d. frá Jótlandsheiðum eða frá Noregi. Jú. Hann hefir flutt inn plöntur lítilsháttar frá Bergen, aðallega barrplöntur. Ég vil spyrja hv. þm., hvernig reynzt hafi þessar barrplöntur, sem hann flutti inn frá Bergen. Það verður ekki hjá því komizt að minnast á gróðrarstöð eða tilraunastarfsemi, sem hann hefir haft umsjón með fyrir Skógræktarfélag Íslands. Ég vil ráðleggja hv. þm. að fara suður í Fossvog, svo þeim gefist á að líta, hvernig þessum manni farast störfin úr hendi. Það er minnzt á það í grg., og framsöguræðu hv. þm., hve óheyrilega dýrar plöntur væru, og að Skógræktarfélag Íslands gæti útvegað þær ódýrari. Þarna er náttúrlega átt við plönturnar frá Sjálandi, sem hann fékk gefins. Það er stærðfræðileg þraut fyrir hv. þm. A.-Húnv. að reikna út, hve mörg 5% hafa verið lögð á plönturnar, þegar hann fékk þær fyrir ekki neitt, og þar að auki losnaði við að greiða toll, eða komst hjá því að greiða innflutningsgjald af þeim, sem Sig. Sig. eða aðrir innflytjendur hafa ekki komizt hjá að borga. E. t. v. hefir það ráðið úrslitum, hvaðan plönturnar voru fluttar inn, að hann fékk þær gefins frá Sjálandi. En er það aðalatriði að fá plönturnar gefins? Ég held, að svo sé ekki. Ég held, að hitt skipti meiru máli, að plönturnar þoli þau skilyrði, sem þeim eru boðin hér á landi. — Ég vil svo ekki lengja umr. mikið um þetta mál, en get að lokum sagt það, að þegar ég las grg frv. og hlustaði á hv. þm. A.-Húnv. flytja framsögu, þá datt mér í hug kafli úr sögunni af Þuríði formanni, þegar Kristín kona Gottsvins las húslesturinn og eitthvað stóð þar um börn djöfulsins, þá sagði hún: „þetta átt þú nú, Gottsveinn“, og þegar minnzt var á mannanna börn, sagði hún: „þetta eigið þið nú, börnin góð“, en þegar minnzt var á guðs börn: „þetta á ég sjálf“. Eins er með hv. þm. A.-Húnv., að hann þarf að láta alla hafa nokkuð. Hann hefir fengið styrk nokkurn frá sósíalistum, sem ekki hafa allir vitað um, og nú vill hann friða þessar fáu sálir á Blönduósi með því að geta sagt: Ég gat þó látið ykkur hafa eitthvað. Ég verð að segja um þessa útdeilingu gæða lífsins til ýmsra flokka, að ég get ekki séð, að þetta sé svo matarmikið, sem hér er boðið, að nokkur geti orðið feitur af. Vil ég ráðleggja hv. þm. A.-Húnv. að vera ekki með þessi látalæti, heldur ganga alveg á hönd sósíalistum; þá væri einhver leið fyrir hann að hafa eitthvað upp úr þessu daðri.