06.03.1935
Neðri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Sigurður Einarsson:

Mér er vitanlega ekki kunnugt um, hvort hv. landbn. hefir í fórum sínum álit frá Bf. Ísl., en ég geri ráð fyrir, ef hún hefir það, að hún láti það uppi. ég skal taka það fram, að ég sé enga ástæðu til að taka það nærri sér eða taka það hátíðlega, þó fram komi kvörtun um, að þetta sé áleitni við vissa menn. Það er aðeins þetta venjulega, sem alltaf er kastað fram af vissum mönnum, ef einhverju umbótamála er hreyft. Engar umbætur eru gerðar svo, að kyrrstöðumennirnir tali ekki um, að það sé áleitni við vissa menn. Ég ætla heldur ekki að fjölyrða um það atriði, heldur annað, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni. Hann var hér með dylgjur um fjarv. mann, sem engin tók hefir á að svara hér fyrir sig sjálfur, nefnilega Hákon Bjarnason skógræktarfræðing. (HannJ: Hann hefir Sigurð Einarsson). Ég sagði, að hann hefði engin tök á að svara hér fyrir sig sjálfur. (HannJ: Jú, Sigurð Einarsson). Mér finnst þetta nokkuð einkennileg aðferð og einkennileg framkoma hjá hv. þm., að vera að dylgja um þennan mann, sem að allra dómi, er til þekkja og vit hafa á, er manna fróðastur um þessi mál. Hann er viðurkenndur fyrir þekkingu, dugnað og ósérplægni. Það eru nægar sannanir fyrir því, að hann hefir verið sívinnandi, leiðbeinandi og liðlegur við alla, án þess að heimta borgun fyrir leiðbeiningar sínar.

Það getur vel verið, að hægt sé að finna plöntur, sem ekki hafa þrifizt, bæði hjá honum og öðrum. Ég hygg, að líka megi finna plöntur, sem ekki hafa þrifizt, hjá þeim mönnum, hverra hagsmuni hv. þm. þykist bera fyrir brjósti, og að þær geti dáið, þó hann hafi strokið þeim með sínum fínu höndum. Að bjóða þm. suður í Fossvog til að sjá, hvernig gróðrarstöðin er rekin, nú þegar allt er undir snjó, virðist mér bara vera gert til að slá um sig. Mér er til efs, að hv. þm. hafi nokkurntíma komið suður í Fossvog, eða hafi yfirleitt nokkurt vit á þessum hlutum.

Um það, hvort plöntur Hákonar Bjarnasonar hafi verið gefins og þess vegna teknar frá Sjálandi, skal ég ekkert segja, en mér skilst, að hv. þm. hefði getað ásakað fyrrv. landbúnaðarráðh. — sem stendur honum allnærri — fyrir að hafa gefið eftir tollinn af þessum greiðslum, sem ég býst ekki við, að hann hafi gert af því, að hann hafi álitið þessar plöntur vera ómerkilegt „skítti“, heldur af því, að hann hafi álitið þær einhvers virði. Vil ég ráðleggja hv. þm. að taka þennan flokksbróður sinn ærlega í karphúsið á næsta flokksfundi; það mun þá fyrr hafa verið urrað á þeim fundum.