06.03.1935
Neðri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Frsm. (Jón Pálmason):

Það verður ekki sagt með sanni, að hv. þm. V.-Húnv. láti sitt eftir liggja að hamla framgangi þessa litla frv. Við 2. umr. talaði hann sig dauðan með mótsögnum og þrætni, og það eru fullar líkur til, að svo muni einnig verða nú. Hann hefir nú snúið þessu máli upp í pólitíska ádeilu á mig sérstaklega. Sé ég ekki ástæðu til að standa í vegi fyrir þeim umr. eða þegja við, heldur mun ég svara eftir því, sem mér þykir ástæða til. En áður en ég geng inn á þá leið að svara þeim aðfinningum eða tala um þá hluti, vil ég víkja nokkuð að því, er hv. þm. sagði um frv. sjálft. Hann var að tala um álit frá Bf. Ísl., sem lægi fyrir landbn. Mér er algerlega ókunnugt um, að svo sé, hjá henni er ekkert álit, er snertir þetta frv., mér vitanlega, en ef svo er, þá mun form n. gera grein fyrir því undir umr. (PZ: Það er ekkert álit). Þá kom hv. um, að því sama og við 2. umr., að Sigurður Sigurðsson biði við þetta fjárhagslegt tjón, en þó væri um svo lítið að ræða, að ekki væri hægt að draga fé saman á því, þar sem innflutningurinn nemur aðeins 3–4 þús. kr. árlega. Þetta stangast óneitanlega allóþyrmilega á. Þá hefir verið gefið tilefni til að víkja að nafngreindum manni. Er fjarri því, að ég með frv. þessu, sem hér liggur fyrir, sé að sýna þeim manni vantraust á einn eða annan hátt.

Ég hefði fús viljað vinna að því, að hann hefði orðið skógræktarstjóri nú, þegar hann lætur af starfi sínu hjá Bf. Ísl., og fengi þessi mál öll í sínar hendur. En nú er því ekki svo farið, heldur er annar maður til þess kjörinn að hafa skógræktarmálin á hendi, og lít ég svo á, að sá maður sé einkar vel til þess fallinn, þó Sigurður sé það einnig.

Það væri gersamlega óþarft að gera nokkrar ráðstafanir í þessu sambandi, ef ekki væru aðrir menn en Sigurður Sigurðsson fyrrv. búnaðarmálastjóri, sem hefðu haft þetta með höndum á undanförnum árum.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Húnv. talaði um ólag á starfsemi Hákonar Bjarnasonar í þessu sambandi, þá get ég ekki með vissu um það sagt, hvort það er á rökum byggt, að hann hafi fengið trjáplöntur frá útlöndum fyrir ekki neitt og selt þær síðan hér á landi. En mér þykir það hálfóviðfeldið að kasta fram slíkum ásökunum í garð þessa unga starfsmanns hins opinbera, sem er að taka við þeim málum, sem hér er um að ræða, skógræktarmálunum, án þessa að færa fram sannanir fyrir þeim. Ef eitthvað hættulegt eða varasamt er að samþ. þetta frv., þá getur það ekki legið í öðru en því, að þessi skógræktarfræðingur, Hákon Bjarnason, sé ekki þessu starfi svo vaxinn, að honum sé treystandi til að fara með þessi mál. En ef honum er ekki treystandi til að fara með innflutning trjáplantna og hafa eftirlit með innflutningi trjáfræs, þá er honum sannarlega ekki treystandi til þess að vera skógræktarstjóri í landinu. Og þá væri rétt fyrir hv. þm. V.-Húnv. og aðra, sem svipað líta á málið og hann, að gera till. um, að breytt verði um mann í því starfi. En ég hefi ekki neitt fyrir mér, er bendi í þá átt, að Hákon Bjarnason eigi vantraust skilið í þeim efnum. Hann hefir fengið góða menntun á þessu sviði og hefir sýnt mjög mikinn áhuga í því að koma þessu starfi áleiðis á heillavænlegri braut.

Mér barst núna áðan í hendur bréf, snertandi þetta mál, þar sem viðkomandi Hákon Bjarnason gefur nokkrar upplýsingar til áréttingar því, sem í grg. frv. stendur, um það, sem í raun og veru er aðaltilgangur frv., sem sé að koma í veg fyrir, að fluttar verði inn trjáplöntur, sem þrífast ekki hér og gætu orðið til þess, ef þær væru fluttar inn, að skapa vantraust hjá ýmsum mönnum á trjáræktinni, og annar aðaltilgangur frv. er að koma í veg fyrir sýkingarhættu af innflutningi trjáplantna. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp kafla úr áminnztu bréfi, hv. þdm. til athugunar:

„Á allra síðustu árum hafa verið fluttar um 500 hestakastaníur til bæjarins árlega. Innkaupsverð þeirra er allhátt í samanburði við önnur tré, og útsöluverð þeirra hér eftir því. Allt í allt munu vera komnar nokkur þúsund plöntur af þessu tægi hingað til lands, en hvar er árangurinn? Ekkert þessara trjáa hefir náð eðlilegum þroska, nokkur þeirra hjara og bæta aðeins nokkrum centimetrum við sig á ári hverju, en flest þeirra eru löngu úr sögunni. Á blöðum sumra þeirra trjáa, sem hafa hjarað, hefir orðið vart við svepp, sem ég því miður veit ekki nafnið á, en allt virðist benda til, að þessi sami sveppur hafi sýkt reyniviðarblöð. Sveppur þess hefir þó ekki gert neinn usla, en hann ætti að vera góð aðvörun, því að margir aðrir sveppir og hættulegri geta borizt með trjánum.

Sem dæmi má nefna, að Íslendingur einn keypti plöntur í Hellerup Planteskole í nánd við Kaupmannahöfn, er hann var á ferð ytra. Það er aukaatriði í þessu sambandi, að hann keypti aðallega eikur og önnur tré, sem ekki geta þrifizt undir 15 stiga sumarhita, en í nánd við Hellerup Planteskole hefir orðið vart við vörtupest í kartöflum. Vörtupestarsýkillinn berst með jarðveginum, en ekki með plöntunum. Með trjáplöntunum kemur ávallt nokkur jarðvegur, og er ómögulegt að komast hjá því, að svo sé. En hingað til lands má ekki flytja kartöflur, sem vaxið hafa í minna en 5 kílómetra fjarlægð frá vörtupestarsýktum stöðum, samkv. auglýsingu í Lögbirtingablaðinu frá 1928. Prófessor Ferdinandsen, plöntusjúkdómafræðingurinn, sem var hér í fyrra, sagði mér, að þessi fyrirskipun væri algerlega ófullnægjandi, sakir þess, að hvaða plöntur sem væru gætu borið með sér sýkilinn, ef þær hefðu vaxið innan 5 kílómetra takmarka frá þeim stöðum, sem sýkinnar hefði orðið vart. Þess vegna hefðu plönturnar frá Hellerup Planteskole alveg eins getað borið vörtupest hingað til lands eins og kartöflur. Það eru engar hömlur á að flytja plöntur hingað til landsins, og því er landið næstum jafnopið fyrir vörtupest og það var áður en fyrrnefnd auglýsing í Lögbirtingablaðinu kom út.“

Af þessu sést, að um hættu er að ræða af sýkingu fleiri plantna en trjáplantna. Ennfremur segir svo í bréfinu:

„Á síðari árum hefir orðið vart við mjög marga sveppi á runnum og trjám, sem vart munn hafa verið hér áður. Flestir þeirra eru lítt skaðlegir, en til þess eru vítin að varast þau. Þó mun sveppur einn, sem vex á reynivið, hafa orðið mörgum þeirra að fjörtjóni. Hann heitir Nectria galligena, og hafa mörg álitleg tré orðið að falla af hans völdum. Héðan af þýðir eðlilega ekki neitt að ætla sér að verjast honum, en þeir sárfáu álmviðir, sem hér eru, eiga sér bráðan bana búinn, ef menn framvegis mega flytja álmviði hingað til lands frá hvaða stað sem er. Fyrir nokkrum árum kom nefnilega upp sýki á álmi, sem steindrepur alla þá, sem hún smitar, og í öllum löndum eru nú til strangar reglugerðir um innflutning álma.“

Þá vil ég víkja að því, sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala um og nokkuð kom fram við síðustu umr. málsins; þetta er það, að hv. þm. vill gera þetta litla mál að pólitísku númeri í þeim skilningi, að ég sé með flutningi þess á einhvern hátt að ganga inn á þá braut að styðja mína pólitísku andstæðinga. Og jafnvel lét sá hv. þm. á sér skilja með dylgjum, að ég væri hér að borga fyrir atkvæðafylgi sósíalista norður í Húnavatnssýslu. Ég veit nú ekki, hvort sósíalistar hafa greitt mér nokkurt atkv. eða ekki. En hitt veit ég, að ég hefi ekki gert samninga við neina um að borga atkvæðafylgi, hvorki með því að haga starfsemi minni hér á þingi eftir persónulegri ósk eins eða neins, né neinu þess háttar. En í hverju máli mun ég leitast við að fara einungis eftir því, sem ég álít réttast, án tillits til þess, hvort þessi eða hinn flokkur fylgir því. Ég skal að vísu játa það, sem öllum má eðlilegt þykja, að mér er geðfelldara að hafa fullt samstarf við flokksbræður mína en aðra menn. En takist það ekki, læt ég það samt ekki hafa áhrif á mig til að snúa mér frá máli, sem ég á annað borð er sannfærður um, að rétt sé að nái fram að ganga. Mér virðist það undarlegt að halda því fram, að þetta mál eigi að vera pólitískt númer, og einnig að í því felist nokkur hætta, að fá skógræktarfræðingi landsins í hendur vald til að hafa eftirlit með og ráða, hvaða trjáplöntur eru fluttar inn í landið og hvaða trjáfræ er notað. Þá fara pólitísk númer að verða smá, ef um það á að vera að ræða, að eitthvert stefnurof sé hér að koma fram með flutningi þessa frv. Annað mál er það, að ef eitthvað ætti að vera til þess fallið að hamla framgangi þessa frv., þá virðist mér eðlilegast að álíta, að það ætti helzt að vera það, og það eitt, að þetta mál sé of lítilfjörlegt mál til þess að hafa um það miklar umr. og eyða til þess tíma hæstv. Alþ. En úr því að hv. þm. V.-Húnv. hefir verið með dylgjur og glósur í sambandi við það í minn garð, þá mætti og minnast á það, að þessi hv. þm. hefir um rúmlega 6 ára skeið verið stuðningsmaður stj. á Alþ., þeirra stj., sem voru við völd frá 1927 og til 1933, og á öllu þessu tímabili hefir hann hagað störfum sínum þannig, að hann ber ábyrgð á ýmsum þeim skammarverkum, sem hafa á þessu tímabili verið unnin í íslenzkum stjórnmálum. Það er öllum kunnugt, að m. a. ber hann ábyrgð á því, sem á því tímabili var starfað að því að innleiða bönn og höft í íslenzkri verzlun. Það er þess vegna ákaflega undarlegt, ef slíkum manni ferst að vera með þær dylgjur um pólitísk númer, sem hann hefir látið sér sæma að vera með hér í sambandi við það smámál, sem hér liggur nú fyrir. Hv. þm. komst svo að orði við 2. umr. málsins, að hér væri um 3 þús. kr. upphæð að ræða, sem svo ætti að minnka ofan í ekki neitt. Ég skal ganga inn á, að þessi upphæð geti verið rétt. En hvað er þá hér um að ræða frá fjárhagslegu sjónarmiði? Sannarlega ekki mikið og ekki þannig, vaxið, að ástæða sé til að gera þetta að einhverju ákaflega miklu árásarefni né gera það að einhverjum voðalegum sósíalistískum draug hér á hæstv. Alþ. Það kann nú að vera, að þessi hv. þm. sé farinn að iðrast sinna fyrri skammarverka, og mætti vel vera, að svo væri. Þá væri vel þess vert að þakka honum það með virðingu. En á meðan hann er ekki búinn að sýna meiri alvöru í þá átt en hann þegar hefir gert, þá er of snemmt að þakka. Og ferst honum næsta illa að vera með dylgjur og glósur í garð þeirra manna, sem syndlausir eru í því efni.

Fleiri orðum um þetta mál ætla ég svo ekki að fara hér, nema sérstakt tilefni gefist til.