06.03.1935
Neðri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég sé ekki ástæðu til þess að láta ósvarað nokkrum ummælum, sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni í næstsíðustu ræðu hans, snertandi þetta mál. Ég þarf ekki að fara út í langar umr. hvað efnishlið málsins snertir. Hv. þm. talaði um, að ég hefði látið tala mig upp í að vera fylgismaður þessa máls, að ég hefði gerzt ginningarfífl í þessu máli og að dómgreind mín væri í andarslitrunum. Slíkar glósur og heimskuleg fjarstæða er þannig vaxið, að í rauninni er það tæplega svaravert. (HannJ: Ég átti við í sambandi við sveppina). Hv. þm. V.-Húnv. fer flestum mönnum verr að vera með slíkar glósur og dylgjur í garð annara hér í hv. deild, og hann getur ekki sýnt fram á það með neinum rökum, að ég hafi gerzt ginningarfífl annara manna. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. talaði um, að það hafi eingöngu verið Sigurður búnaðarmálastjóri, sem flutti inn plöntur, þá vil ég taka það fram, að ef svo hefir verið, þá væri engin þörf neinna aðgerða, en sökum þess að hér er um ýmsa aðra að ræða, og eins af því, að hér getur verið stefnt til umbóta með því að koma fastri skipan á þessi mál, þá sé ég ekki ástæðu til þess að láta þá hagsmuni, sem minn gamli vinur, Sigurður búnaðarmálastjóri, kann að hafa haft að gæta í þessu máli, hamla mér frá því að fylgja þessu máli. Sem umboðsmaður annara manna hér á hv. þingi hefi ég engan rétt til þess að gera hér kunningjabragð, hvorki fyrir hann né neinn annan minna vina.

Viðvíkjandi þeim ásökunum, sem hv. þm. er alltaf með í garð skógræktarstjórans, þá vil ég taka það fram, að ég stend ekki vel að vígi með vörn, því að það er atriði, sem ekki er strax unnt að fá fullar sannanir um og erfitt er að færa sannanir fyrir, sem hægt er að taka fullkomlega gildar. Ég tel illa farið að ráðast á opinberan starfsmann, sem nýlega er búinn að taka við þýðingarmiklu starfi, sem áður hefir, því miður, ekki verið eins vel rækt og æskilegt hefði verið. Mér finnst því allskostar óréttmætt að vera með dylgjur og getsakir í garð þessa unga manns áður en nokkur reynsla er fengin fyrir því, hvort hann er fær um að rækja þetta starf eins og vera ber. Ég veit ekki betur en að þessi maður hafi hlotið góða þekkingu í þessu efni, og hann er, eins og kunnugt er, af góðu bergi brotinn, og m. a. þess vegna góðs af honum að vænta. Þess vegna er engin ástæða til þess að ætla annað en að þessi maður sé efnilegur til þess að inna þetta starf af hendi. Ef hann reynist illa, þá getur bæði hv. þm. V.-Húnv. og aðrir, sem áhrif hafa á þetta mál, unnið að því, að skipt verði um mann.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, að Skógræktarfélag Íslands, sem hlutaðeigandi maður hefir starfað fyrir, hafi eingöngu flutt inn plöntur frá Danmörku, þá vil ég taka fram, að þetta er rangt, því að það voru einnig fluttar inn plöntur frá Noregi, Alaska og ýmsum öðrum stöðum, sem aðrir hafa ekki flutt plöntur frá. Ef það skyldi vera, að þessi maður eða aðrir hafi flutt inn þessa vöru frá einhverjum stöðum, sem hún hefir ekki fyrr verið flutt frá, þá er hverjum þeim manni, sem hafa vill áhrif í þessu efni, skylt að leggja svo fyrir, að skógræktarstjórinn geri á þessu breytingu, sem til bóta horfir.

Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta, því að ég vona, að hv. þdm. sjái, hvernig þetta mál er vaxið, og sjái m. a., að þessi einkasölugrýla, sem þyrlað hefir verið upp í sambandi við þetta litla mál, sem af öðrum ástæðum er fram komið, er svo lítils virði, að kynlegt er, ef það atriði á að ráða úrslitum þessa máls hér á hv. þingi.