30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

27. mál, trjáplöntur og trjáfræ

Þorsteinn Briem:

Ég á hér litla brtt. á þskj. 320, á þá leið, að jafnhliða því, sem rósir eru undanþegnar þessum lögum, séu líka undanskildir ávaxtarunnar til heimilisþarfa. Ástæðan til að undanskilja rósir er sú, að þær eru hafðar til heimilisprýði utanhúss og innan, og ætti þá hið sama að gilda um ávaxtarunna, sem notaðir eru til heimilisþarfa. Það gæti orðið til trafala að setja ríkiseinkasölu á svo almennar trjáplöntur. Hinsvegar er ætlazt til, að stj. hafi eftirlit með innflutningum, enda er það nauðsynlegt, svo að ekki berist sveppir með plöntunum, og sama er auðvitað að segja um rósirnar.