02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

30. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Jón Pálmason):

Eins og sjálfsagt allir hv. þm. vita, hefir það verið svo um langan aldur hér á landi, að fjárkláðinn hefir verið ein af plágunum, sem hinn íslenzki landbúnaður hefir átt við að stríða. Gegn þessari plágu var ráðizt með alvarlegu átaki nokkru eftir aldamótin, þegar allsherjar útrýmingarböðun fór fram undir eftirliti.

En reynslan varð sú, að ekki tókst að útrýma kláðanum að fullu, þó mjög nálægt því takmarki virtist vera komizt. Síðan þessi allsherjarböðun fór fram hafa verið hér í gildi lög um þrifabaðanir, og þau framkvæmd, en þrátt fyrir það hefir svo til gengið, því miður, að þessi landplága hefir farið sívaxandi, þó mismunandi sé í einstökum héruðum.

Á síðasta þingi var flutt fyrirspurn út af till., sem samþ. var á þinginu 1933, um hvað gert hefði verið til undirbúnings útrýmingu fjárkláðans. Af þeim upplýsingum, sem þá komu fram, er ljóst, að útbreiðsla fjárkláðans er það mikil, eins og raunar var áður kunnugt, að við það ástand er ekki lengur unandi.

Landbn. öll leggur nú hér fram frv. til l., sem heimila stj. að láta fara fram allsherjarböðun til útrýmingar fjárkláðanum á næsta vetri. eða a. m. k. svo fljótt, sem frekast er kostur á. Út í einstakar gr. þessa frv. skal ég ekki mikið fara, en aðeins víkja að því, að það, sem fyrst og fremst hefir verið fært fram sem mótmæli gegn allsherjar útrýmingarböðun, er það, að hún yrði ríkinu og fjáreigendum svo dýr, að varhugavert væri, eins og fjármálaástandið er nú, að leggja út í slíkan kostnað. Ég álít, að það sé a. m. k. bændastéttinni dýrast að láta ekki neinar aðgerðir í þessu efni fara fram. En þær aðgerðir, sem hið opinbera hefir haft með höndum að undanförnu til umbóta á þessu sviði, eru svo mikið kák, að þær eru í sjálfu sér engu betri en ekki neitt. Hér verður að taka á föstum tökum, en það verður eigi gert, frá sjónarmiði okkar landbnm., á annan hátt en þann, að láta allsherjar útrýmingarböðun fara fram. Við leggjum til, eins og frv. ber með sér, að kostnaðinum, sem af þessu leiðir, verði skipt milli ríkissjóðs, sýslusjóða, hreppsfélaga og fjáreigenda eftir þeim leiðum, sem 4. gr. frv. greinir. Þess vegna er frá okkar sjónarmiði ómögulegt að andmæla þessari ráðstöfun frá ríkisvaldsins hálfu með þeim rökum, að ekki sé fært að leggja út á þessa braut kostnaðarins vegna.

Að svo komnu sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í frv., en vænti, að það hljóti samþykki Alþingis og að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að láta þær framkvæmdir fara fram á næsta vetri, sem þar er farið fram á. En til þess að það megi verða, þarf ýmiskonar undirbúningur að hefjast nú mjög fljótlega.