02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

30. mál, útrýming fjárkláða

Pétur Ottesen:

Það er alls ekki rétt, sem stendur í grg. þessa frv., að ekki séu skiptar skoðanir um það, að nauðsyn beri til hvarvetna um land að ráðast í útrýmingarböðun fjárkláða, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Því hefir verið haldið fram löngum, að með þeim þrifaböðum, sem árlega fara fram, ef vel væri um þá hnúta búið, væri hægt að halda kláðanum svo í skefjum, að ekki stafaði af honum veruleg hætta eða afurðatjón fyrir bændur. Þær skýrslur, sem lágu hér fyrir síðasta þingi, sýndu það, að í sumum sýslum á landinu hefir fjárkláðans ekki orðið vart, eins og ég ætla að sé í Skaftafellssýslum, og í öðrum sýslum eru svo lítil brögð að honum, að sýnt er, að með þrifaböðum má halda honum í skefjum. En sumstaðar á landinu hafa verið meiri brögð að kláðanum, sem mun stafa af því, að þrifaböðun hefir ekki verið þar í eins góðu lagi og í þeim landshlutum, þar sem kláðanum hefir verið haldið niðri.

Reynslan hefir sýnt, að útrýmingarbaðanir, þó framkvæmdar séu af kunnáttumönnum og með nákvæmni, eru ekki heldur einhlítar. Slíkar baðanir fóru fram hér á landi skömmu eftir aldamót, og báru ekki tilætlaðan árangur. Þess ber og að gæta um þrifabaðanir, að þeim var áður meira ábótavant en nú er orðið, því að böðunartæki eru nú betri og víða á landinu eru komnar sundþrær. Því má segja, að þótt farið væri að ráðast í þesskonar böðun, sem frv. fer fram á, þá myndi ekki vinnast öllu meira á heldur en með vandvirknislegri þrifaböðun, unda gengur landbn. óbeinlínis inn á það, þar sem gert er ráð fyrir í 7. gr. frv., að böðun fari fram aftur á þeim svæðum, þar sem útrýming kláðans tekst ekki. Enda mun það vera einróma álit þeirra manna, sem bezt vit hafa á, að ekki sé kleift að ráða niðurlögum kláðans, þó að allsherjar útrýmingarböðun fari fram.

Það hlýtur því að verða verkefni okkar — eins og fjárræktarþjóðanna í nágrannalöndunum, t. d. Skota, sem þetta hafa reynt, en ekki tekizt að útrýma fjárkláðanum — að vanda sem bezt þrifabaðanirnar og gera allt, sem hægt er, til þess að halda kláðanum niðri. En hitt mun okkur ekki fremur en öðrum þjóðum, reynast kleift, að útrýma með öllu kláðanum, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil því nú sem áður skjóta því til landbn. (og skal ég gjarnan vinna með að því), að hert sé á eftirliti með þrifaböðunum, ef til vill á þann hátt, sem frv. mælir fyrir um, að settur sé baðstjóri í hverjum hreppi. Ef séð verður um framkvæmdir þessa, tel ég víst, að með því móti megi ná svipuðum árangri og þeim, sem frv. vill fá framgengt.

Ennfremur vil ég benda á, að þó n. geri lítið úr þeim kostnaði, sem útrýmingarböðunin myndi hafa í för með sér, þá hlýtur hann alltaf að verða mikill, bæði fyrir ríkissjóð, sýslusjóði og hreppsfélög. Ef baðanirnar eiga að taka til alls sauðfjár á landinu, þá kostar baðlyfið eitt 60–70 þús. krónur. Auk þess er mikill kostnaður við mannahald o. fl. Og þá er enn ótalinn einn liður kostnaðarins, og það er, ef steypa verður sundþrær á hverjum einasta bæ á landinu, þar sem sauðfé er, en slíkt er í rauninni fyrirskipað í frv. Nú skortir mikið á, að sundþrær séu til alstaðar. Þar, sem þéttbýlt er, hafa menn rekið fé á milli bæja og slegið sér saman um baðanir, þar sem ekki eru vatnsföll til tálmunar. Samkv. frv. er fyrirskipað, að á hverjum bæ, þar sem baða þarf, sé til baðker. En það er ekki um að tala öðruvísi baðker en sundþrær, því að með öðrum böðunartækjum er böðunin í fyrsta lagi ekki örugg, og í öðru lagi svo fólksfrek og tímafrek, að til hennar er ekki lengur neinn mannafli í sveitum landsins. Það er því ekki annars kostur en nota sundþrær, og það steyptar sundþrær, en það hefir vitanlega mikinn kostnað í for með sér, ef fyrirskipað er, að komið sé upp sundþró á hverjum bæ. Þá er ótalinn sá kostnaður í fóðureyslu, sem leiðir af tvennum böðunum.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta atriði málsins.

Ég býst við, að í þeim héruðum, þar sem kláðinn gerir engan usla eða hefir verið haldið í skefjum, þyki bændum hart aðgöngu að verða þröngvað til þess að láta fara fram tvær baðanir, og auka sér þar með kostnað, sem komast mætti hjá. En eftir fyrirmælum frv. yrði þetta þannig. Það er aðeins eitt, sem ég get gengið inn á í þessu máli, að eftirlit með þrifaböðunum sé skerpt, og með því móti má ráða bót á tjóni því, sem kláðinn veldur í þeim héruðum, þar sem skort hefir á, að vandvirknisleg og rækileg þrifaböðun hafi verið framkvæmd.

Minnast má líka á eitt, sem ekki er ósennilegt, að eigi sinn þátt í útbreiðslu kláðans, að í héruðum, þar sem mest hefir borið á lungnabólgu og öðrum veikindum í sauðfé, hafa læknar ráðið bændum frá að baða sjúkt fé. Þar eð þessi faraldur hefir gengið víða um landið, hefir af hans völdum orðið misbrestur á, að þrifaböðuninni yrði framfylgt. Það var óhjákvæmilegt, að svo færi, og getur því útbreiðsla kláðans átt rót sína að rekja til þessara orsaka.

Ég get bent á sem dæmi þess, hve hættulegar baðanir geta verið lungnabólgufé, að þessi faraldur gekk í vetur ofarlega í Borgarfirði, og drápust á einum bæ 50 fjár. Eftir að hlé varð á því, að féð dræpist, og það virtist í afturbata, þá var farið að baða. En eftir böðunina tók féð aftur að drepast af þessum faraldri. Varð því ekki annað séð en féð þyldi ekki böðunina, eða væri enn of veikt fyrir hana.

Ég hefi aðeins viljað benda á þetta. Ástæðan til þess, að þrifaböðunin hjá okkur hefir ekki ennþá náð betri árangri, getur legið í þessu, fyrst og fremst að ekki er nógu vandvirknislega framkvæmd böðunin, sem m. a. stafar af því, að bændur hliðra sér hjá að baða féð, ef það er sjúkt af öðrum kvillum. Þó að fyrirskipuð væri útrýmingarböðun, þá kæmi ekki til mála að taka til böðunar fé, sem er veikt, því að menn gæti átt á hættu, að það hryndi niður.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um frv. Ég tel, að frekar eigi við að gera endurbætur á þrifaböðunum, þar eð reynslan hefir sýnt, að þau geta borið góðan árangur, heldur en að fara að fyrirskipa útrýmingarböðun, sem vitað er fyrirfram, að engin útrýmingarböðun verður.