02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

30. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Jón Pálmason):

Það hefir sýnt sig síðan umr. hófust, að margir þm. hafa farið af fundi og lýst þar með yfir, hvað litla ábyrgðartilfinning þeir eiga í þessu máli. Það er leitt til þessa að vita, þar sem um jafnmikið nauðsynjamál er að ræða, og það er léleg ástæða fyrir þingmenn, þótt eitthvert mál sé ekki skemmtilegt, að hlaupa þá af fundi.

Ég vil víkja að tveim atriðum í ræðu andmælanda frv., hv. þm. Borgf. Andmæli hans komu mér ekki á óvart, eftir að hafa heyrt skoðanir hans á síðasta þingi, því að þá kom það í ljós, að hann var andvígur útrýmingarböðunum og yfir höfuð, að kláðamálin væru tekin þeim tökum, sem með þarf, ef fullkominn árangur á að fást. Hann heldur, að þrifaböðun ein nægi, en sú skoðun er byggð á ónógum athugunum. Hann hefir augsýnilega ekki kynnzt því, hvernig er að eiga við kláðann í þeim héruðum, þar sem hann hefir náð mikilli útbreiðslu. Sú skoðun þessa hv. þm., að það sé um að kenna vanrækslu manna í héruðum, að kláðinn hefir náð útbreiðslu og þrifaböðunin ekki komið að haldi, er byggð á vanþekkingu í þessum efnum, því að það, að einstök héruð hafa komizt hjá kláðanum, stafar einmitt af því, að útrýmingarböðunin hefir tekizt þar betur. Þrifabaðanir einar koma ekki að haldi gegn kláðanum, þegar hann er kominn á það stig, sem nú er raun á orðin víða um landið. Reynslan hefir sýnt, að þótt gerð hafi verið rækileg gangskör að því á sumum bæjum að útrýma kláðanum, þá hefir það ekki almennt haft árangur, því að sýking hefir komið annarsstaðar frá. Það er alls ekki sýnilegt, að unnt sé að halda sýkinni í skefjum, nema alstaðar sé gerð gangskör að því að útrýma henni.

Það geta verið skiptar skoðanir um það, hvort takast má með útrýmingarböðun að útrýma kláðanum fyrir fullt og allt. Úr því getur reynslan ein skorið. En það sýndi sig með böðununni 1904, hvað nærri því varð komizt að útrýma kláðanum, og er undarlegt, ef það gæti ekki tekizt nú, með betri þekkingu og betri skilyrðum að öllu leyti.

Það eru svo mikil vandræði, sem af kláðanum stafa, og það sýnir svo mikið menningarleysi landsbúa, að hann skuli látinn haldast hér við, að mér finnst það fyllilega tilvinnandi, þó að jafnvel þyrfti að láta fara fram tvær útrýmingarbaðanir. Ég tek kostnaðarástæðurnar, sem bornar hafa verið hér fram, alls ekki til greina. Það er enginn gífurlegur kostnaður, sem um er að ræða. Þeir menn, sem setja hann fyrir sig, þekkja lítið til þess, hver kostnaður Ég fyrirhöfn, afurðatap og fóðureyðsla því fylgir, að verða að búa við þennan vágest. Þar er miklu meiri kostnað um að tala.

En viðvíkjandi kostnaðarhliðinni er það rétt, sem hv. þm. Borgf. og hæstv. fjmrh. hafa komið fram með, að landbn. hefir ekki lagt fram áætlun um kostnaðinn, enda er það örðugt. En þó var gengið út frá. eins og þm. Borgf. sagði, að baðlyf fyrir allt landið — kosta hæst 50–60 þús. kr., og ríkissjóður greiði helming þeirrar upphæðar. Fyrir fjáreigendur er því enginn aukakostnaður að þessu leyti, því að þeir verða að kaupa baðlyf hvort eð er, og auk þess er líklegt, að hægt verði að fá það ódýrara en verið hefir. Hér er því ekki um að ræða nema 20–30 þús. króna kostnað fyrir ríkissjóð. En hvað mikið er árlega lagt fram til þessara hluta? Ég hefi ekki athugað eða séð reikningana, en ég hygg það sé allveruleg upphæð, og því fé er nú öllu á glæ kastað, eða því sem næst. Aukin fjárútlát í þessu efni eru því svo lítil, að þau koma ekki til greina sem frambærileg mótmæli gegn frv.

Hvað snertir orð hv. þm. Borgf., að það sé rangt í grg frv. að ekki séu skiptar skoðanir um nauðsyn þess að hefjast handa í þessu efni, vil ég taka það fram, að ég hefi ekki orðið þess var, að ágreiningur sé um það, að hefjast beri handa í málinu og umbóta sé þörf. Skiptar skoðanir eru aðeins um það, hvort útrýmingarböðun eða aukin þrifaböðun eigi að fara fram.

Þá er að víkja að þeim kostnaði, sem hv. þm. Borgf. segir, að leggja eigi á fjáreigendur, með því að fyrirskipað sé í frv. að steypa sundþrær á hverjum bæ. En því er ekki þannig farið. Það er auðvelt að framkvæma útrýmingarböðun, þó að ekki séu sundþrær á hverju heimili. Í sumum héruðum eru sundþrær nærri því á hverju heimili. En þar, sem svo er ekki, má notast við trékör og önnur baðáhöld, og kostar það aðeins meiri baðlyf en ella.

Viðvíkjandi því, hver aðstaða bænda er til þessa máls, þá er því ekki að leyna, að Alþingi og búnaðarþingi hafa borizt fjölmargar óskir um það frá bændum, að hafizt væri handa í þessu máli og allsherjar útrýmingarböðun látin fara fram. Og búnaðarþing er nú nýbúið að samþ. áskorun til Alþ. um framkvæmdir í þessu efni.

Þá minntist hv. þm. Borgf. á erfiðleika við framkvæmd böðunar vegna heilsufars sauðfjár. Það er út af fyrir sig vert að athuga þá ástæðu. Ef mikil brögð eru að sýking sauðfjár af öðrum orsökum en kláða, getur verið erfitt að taka féð til böðunar. En sem betur fer erum við nú á svo góðri leið með lækning þeirra sjúkdóma, og bændur gera sér vonir um, að bráðum verði unninn bugur á þeim með læknislyfjum, svo að þessi veikindi ættu ekki að geta orðið mikil fyrirstaða.

Allt þetta er því þannig vaxið, að það eru ekki frambærilegar ástæður gegn frv. En eitt er það, sem fram hefir komið í umr., bæði hjá hv. þm. Borgf. og hæstv. fjmrh., að orkað getur tvímælis, og það er, hvað gera eigi við þau héruð, þar sem rannsóknir hafa sýnt, að enginn kláði er. Það er athugandi, hvaða leið hér á að fara. Þá veltur allt á því, hvort tryggt er, að ekki séu samgöngur við fé annarsstaðar, þar sem sýkingarhætta er. Ég hefi ekki athugað, hvort t. d. ætti að sleppa Skaftafellss. og Suður-Múlasýslu við útrýmingarböðun, af því að ekki stafi þar hætta af samgöngum við annað fé. Ráðh. nefndi, að þar væri sýkin lítil eða engin. En ekki kemur til mála að sleppa við böðun nokkru héraði, þar sem kláðavottur er, hvað lítill sem hann kann að vera. Hitt er sjálfsagt að athuga, hvort fært sé að sleppa algerlega ósýktum svæðum án þess hætta stafi af.