02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

30. mál, útrýming fjárkláða

Hannes Jónsson:

Ég kann ekki við, að þetta mál fari svo í gegnum þessa umr., að ekki heyrist raddir með frv. landbn. Þetta er svo veigamikið mál fyrir landbúnaðinn, að ég tel ekki vansalaust að sýna því slíkt tómlæti.

Má vera, að í sumum sýslum sé kláðinn ekki mjög útbreiddur eða magnaður, en það nægir ekki til þess að hægt sé að gera ráð fyrir því, að hann verði ekki að miklu tjóni, því hann getur hæglega breiðzt fljótt út, og þau svæði, þar sem kláðans hefir ekki orðið vart, eru svo fá, að mér finnst ástæðulaust, að nokkur vilji undanskilja þau. Rök þau, sem komið hafa fram á móti frv., finnst mér ekki að séu veigamikil. Kostnaður sá, er af þessu leiðir, þarf ekki að verða mikill — eða eins og hv. frsm. tók fram, ekki meiri en sem svarar seinni böðun. Í mörgum sveitum er meiri hl. fjár tvíbaðaður, og ríkissjóður greiðir árlega mikið fé til stuðnings böðun. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt, að komið sé á útrýmingarböðun, og hygg, að það yrði skynsamlegasta aðferðin að ganga þannig milli bols og höfuðs á þessum erkifjanda landbúnaðarins.

Um kostnaðinn við vinnuna er það að segja, að hann getur aldrei orðið þungur í skauti. Flestir eru þannig settir, að þeir geta komizt af með þann vinnukraft, sem til er á heimilunum, og svo hjálpa nágrannarnir hver öðrum. — Heyeyðslu er að vísu nokkur í sambandi við slíka útrýmingarböðun, en þó ekki meiri en sú, er leiðir af seinni böðun; en eins og ég tók fram áðan, þá er allvíða tvíbaðað, og þar er þá ekki um nokkurn aukakostnað að ræða. Hygg ég, að það sé svo víða, sem þarf að tvíbaða, og það ár eftir ár, að þess vegna sé þetta spor í rétta átt og verði til þess að skapa tryggari framtíð. Ég þekki óvíða þau héruð, þar sem ein böðun er einhlít, og fóðureysla sú, er af þessu leiðir, getur varla orðið til stórtjóns. Ég þekki ekki svo illan ásetning, að bændur þoli það ekki þess vegna, að tvíbaðað sé. Ég veit ekki til, að nokkur reynsla sé til, sem sannar það, að tvenn böð séu hættuleg fyrir heilsu fénaðarins, og hygg, að það geti ekki komið til greina, nema baðlyf þau, sem notuð eru, séu sérstaklega óholl. Mér finnst þetta mál svo mikilsvert, að ég tel sjálfsagt, að Alþingi taki á því með fullum skilningi. Ég vil lýsa því yfir, að í mínu héraði er mikill áhugi fyrir því, að slíku fyrirkomulagi verði komið á.

Ég mun ekki fara út í neinar stælur um þetta mál. Ég hefi aðeins lýst því frá mínu sjónarmiði og minna kjósenda, og ég teldi það ákjósanlegt, að sem flestir þm. vildu láta í ljós álit sitt, ég þykist sjá, að þeir, sem helzt eru á móti frv., séu viljugastir á að kveðja sér hljóðs. En ég vænti þess, að hinir láti líka til sín heyra.