20.02.1936
Neðri deild: 4. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Frv. þetta lá fyrir síðasta þingi og var samþ. í þessari hv. deild, en strandaði í hv. Ed. síðasta dag þingsins, vegna þess að neitað var um afbrigði.

Þetta frv. fer fram á það að veita sýslufélögum heimild til þess að komu á hjá sér fóðurtryggingarsjóðum, sem varið sé til kaupa á fóðurbæti til tryggingar búfénaði manna í viðkomandi landshluta. Á móti framlagi sýslnanna komi svo ákveðið framlag úr ríkissjóði, sem þó sé aldrei hærra en sýslan leggur fram.

Þetta var dálítið rætt hér í d. í vetur, og því ekki ástæða til að fara mörgum orðum um það nú. En ég ætla, að það, sem liðið er af þessum vetri, geti fært öllum heim sanninn um það, að það sé brýn þörf á að gera ráðstafanir í þessa átt, hvort sem menn aðhyllast, að það sé gert eins og frv. fer fram á eða á annan hátt.

Það er ljóst, að á miklum hluta af Austur- og Norðurlandi er fénaður manna í voða, ef þessi harðindi haldast áfram. Hefði því verið brýn nauðsyn á að hafa einhvern bandbæran varaforða handa fénaðinum nú. — Ég legg svo til, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og landbn.