03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Finnur Jónsson:

Ég sé, að fóðurtryggingarsjóðsfrv. þetta nær aðeins til sveita; kaupstaðirnir geta ekki komið hér til greina. Nú vill svo til, að um 5% af kúaeign landsmanna er í kaupstöðum landsins, og sauðfjáreign í kaupstöðum mun vera mikið á 9. þús. Þetta er að vísu ekki mikill hluti af búpeningseign landsmanna, en mér virðist þó rétt, að hv. landbn. sé falið að athuga, hvort ekki sé rétt, að ákvæði frv. þessa um fóðurtryggingarsjóði nái einnig til kaupstaðanna. Þetta ætti hv. n. að geta athugað á milli umr. — Það er vitanlegt, að ýmsir þeir menn, sem búfé eiga í kaupstöðum, eru fátækir menn, sem hafa búfjárstofninn sér og sínum til lífsframdráttar; gæti það því verið mikill hnekkir fyrir þá, ef stofninn félli sökum fóðurskorts. Sakir þessa er það ósk mín til hv. n., að hún taki þetta til athugunar fyrir næstu umr. málsins.