03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Emil Jónsson:

Eins og nál. ber með sér, hefi ég skrifað undir það með fyrirvara, sem þó er ekki ýkjamikill. Ég hefi verið n. sammála um öll höfuðatriði, að einu undanskildu, og ég hefi borið fram um það sérstaka brtt. á þskj. 68. Ég þarf ekki að vera margorður um frv. að öðru leyti; bæði hv. frsm. og hv. þm. Borgf. hafa skýrt það svo rækilega. En ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim ágreiningi, sem varð á milli mín og n., og í hverju hann er fólginn og hvað liggur til grundvallar fyrir brtt. minni.

Fóðurtryggingarsjóðir þessir, sem frv. gerir ráð fyrir, að geti starfað í öllum sýslum og eigi að geta fengið allt að 75 þús. kr. árlega úr ríkissjóði er ætlazt til, að séu byggðir á svipuðum grundvelli eins og atvinnuleysissjóðir verkamanna í kaupstöðunum. Það er ætlazt til, að myndað sé félag, og þegar það er stofnað, þá leggur ríkissjóður fram styrk. Svo er ekki annað sagt í frv. en það, að þátttakendurnir leggi að minnsta kosti jafnt á móti. Þetta þykir mér fulllítið, bæði af því, að ég álít það of veigalítið og tel það ekki heldur rétt gagnvart atvinnuleysistryggingunum, að ríkið leggi fram jafnmikið og þátttakendurnir. Við atvinnuleysistryggingarnar eru ákvæðin þau, að ríkið leggur ekki fram nema ¼ af því fé, sem í sjóðinn kemur. Bæjarfélagið leggur fram ¼, og þeir tryggðu sjálfir ½ eða með öðrum orðum tvöfalt á móti ríkinu.

Þótt till. mín væri samþ., mundi ríkissjóður samt leggja fram 1/3 af því fé, sem fóðurtryggingarsjóðirnir fengju til umráða, og er það meira en það, sem atvinnuleysissjóðir eiga að fá, og auk þess ber þess að gæta, það það, sem bæjar félögin leggja fram, er að nokkru frá þeim tryggðu sjálfum.

Hv. frsm., 2. þm. N.-M., hefir skýrt mér svo frá, að á meðalbú mundi framlag bóndans verða um 6 kr., og þótt þetta sé tvöfaldað, verður upphæðin ekki nema 12 kr. á meðalbónda, Og ég álít, að með tilliti til þeirra hlunninda, sem bóndinn skapar sér með þessu framlagi, þá sé það ekki of hátt. Við þetta ynnist það líka, að sjóðirnir gætu betur notið sín, en ættu samt ekki að verða neinum bónda ofvaxnir.

Til þess að létta undir með þeim, sem taka þátt í þessum tryggingum, bar ég fram í n. till. um það, að þeir, sem í 5 ár hefðu ekki notið styrks, fengju endurgreitt framlag sitt að hálfu. Þennan hluta till. minnar tók n. svo upp, en hann var miðaður við, að hinn hluti till. næði einnig fram að ganga, og sá hlutinn var meginatriðið. Nú verður það að teljast réttlátt og gott, að þeir, sem einskis styrks njóta, fái endurgreitt af tillagi sínu, og það myndi sporna á móti því, að menn yrðu óánægðir með að leggja fram tillög sín án þess að fá nokkuð í staðinn, og það er ekki tilgangur laganna að örva bændur til þess að sefja illa á. En mér hefði fundizt það sanngjarnt, að meginatriði till. minnar hefði verið tekið til greina, og svo hefði þetta fengið að fljóta með. Ég get ekki séð, að tólf krónur séu svo mikil upphæð, að hún sé líkleg til að setja nokkurn bónda á vonarvöl. Mér finnst það leitt, að n. skyldi ekki geta fallizt á þessa till. mína, að ríkissjóður leggi aðeins fram að hálfu móts við þá, sem sjóðanna eiga að njóta, og eins og ég hefi tekið fram, þá er það sanngjarnt samanborið við þau ákvæði, sem gilda um atvinnuleysissjóði. Ég þarf svo ekki að rökstyðja þetta frekar, en skal geta þess, að það var fullt samkomulag í n. um önnur atriði.

Út af fyrirspurn hv. þm. Ísaf., hvort ekki sé rétt að selja inn í frv. heimild til að stofna samskonar fóðurtryggingarsjóði í kaupstöðunum, vil ég taka það fram, að ég tel rétt, að n. taki það til athugunar, og að óathuguðu máli sýnist mér eðlilegt, að heimilt sé að stofna fóðurtryggingarsjóði í kaupstöðunum, ef þess er álitin þörf. Ég geri ráð fyrir, að n. geti athugað þetta atriði fyrir 3. umr., og komið þá fram með brtt. um hliðstæð ákvæði fyrir kaupstaðina.

Annars get ég fallizt á það, að höfuðhættan við þetta mál sé sú, að menn fari að setja á tryggingarnar og verði ekki eins varkárir að haustinu, og treystu um of á, að þeir gætu fengið hjálp, og ef það yrði úr, þá væri vitanlega verr farið en heima setið og öllum hlýtur að vera sérstakt áhugamál að koma í veg fyrir, að svo fari. Með þeirri breyt., sem ég gat um áðan, að stefnt væri að með brtt. minni, og n. tók upp, að þeir menn fái að hálfu endurgreidd tillög sín, sem ekki hafa notið neins styrks í 3 ár, er reynt að girða fyrir þessa hættu. Menn verða ánægðari og framlagsfúsari, ef þeir fá þann bónus, og það finnst mér gera kleifara að framkvæma till. mína um að hækka gjaldið, ef þeir, sem ekki þurfa að nota sjóðinn, fá þannig endurgreiðslu.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, vildi ég aðeins gera grein fyrir þessari brtt. minni, og sé ekki ástæðu til að minnast á önnur atriði.